152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[16:01]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið. Ef ég fer bara beint í að reyna að svara spurningu þingmannsins um stöðu sauðfjárbænda þá er það þannig að kerfið sem sauðfjárbændur búa við er að framleiða má eins mikið og menn vilja. Það er enginn kvóti innan þeirrar framleiðslu, ekki neinn. Það eru engar hömlur á því hvað má framleiða. Ríkisstuðningurinn byggist á greiðslumarki og síðan eru álagsgreiðslur sem tengjast gæðastýringu og gripagreiðslum og of langt mál að fara út í það. Það eru engar hömlur. En stærsti vandi þeirrar greinar er sá að við höfum ekki mátt vinna saman til að ná hagræðingu innan greinarinnar. Það er langstærsta vandamálið. Sauðfjárbændur geta ekki hagrætt innan greinarinnar, þ.e. afurðasölunnar, vegna þess að greinin hefur ekki sömu starfsskilyrði og mjólkuriðnaðurinn. Það er stóri þátturinn. Sauðfjárbændur eru ekki fastir í þeim fjötrum að geta ekki farið í einhverjar aðrar búgreinar. Það er bara minnsta mál. Það eru fjölmargir sauðfjárbændur í skógrækt, mjög margir, þó að það kunni að hljóma sérkennilega. Menn þekkja það ágætlega austur á landi þar sem þetta fer mjög vel saman mjög víða. Sauðfjárbændur eru mjög virkir í uppgræðslu á landi, stunda alls konar umhverfisvernd og annað og eru síðan í fjölmörgum öðrum störfum sem tengjast bæði landbúnaði og öðrum störfum í dreifbýlinu.