152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Nú höfum við í tæp tvö ár staðið í stormsveipi kórónuveirunnar eins og heimsbyggðin öll. Við hér á Íslandi höfum gripið til ýmissa ráða til að takast á við vágestinn, gripið til aðgerða sem hafa eðli málsins samkvæmt heft mjög frelsi einstaklinga, stofnana og atvinnurekanda. Við höfum varið milljörðum í heilbrigðiskerfið okkar. Við höfum farið í nýjar aðgerðir sem ganga út á það að mæla kórónuveiruna, prófa fólk trekk í trekk. Við höfum sent fólk í einangrun, fólk í sóttkví, atvinnurekendur hafa þurft að loka starfsemi sinni eða skerða verulega. Allt er þetta auðvitað byggt á því að við höfum verið að glíma við farsótt, mjög smitandi sjúkdóm sem lagt hefur marga að velli. Árið 2020 fjölluðum við hér á Alþingi um breytingar á sóttvarnalögum. Þá vorum við komin inn í kórónuveirufaraldurinn og ráðherra mælti fyrir ákveðnum breytingum á lögunum til að takast betur á við þann faraldur sem á okkur herjaði. Á þeim tíma varð mér tíðrætt um, bæði við 1. og 2. umr. um það mál, nauðsyn þess að þegar gripið væri til aðgerða sem heftu mjög frelsi einstaklinganna væri nauðsynlegt að þingið kæmi með einhverjum hætti að slíkri ákvarðanatöku.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég vissi ekki nákvæmlega hvaða leið væri best til þess fallin. Ég nefndi þó í umræðunni hvaða leið Norðmenn og Danir hefðu farið. Svo því sé til haga haldið settu Norðmenn á ákveðin neyðarlög í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og þegar ráðherra þar gefur út sóttvarnareglugerð geta þingmenn norska Stórþingsins mótmælt reglugerðinni og ef fleiri en 1/3 þingmanna sendir forseta þings bréf þess efnis þá fellur reglugerðin einfaldlega úr gildi. Í Danmörku er það svo að ráðherra skal kynna velferðarnefnd eða sérstakri heimsfaraldursnefnd tillögur sínar og nefndin þarf að samþykkja tillögurnar til þess að þær geti öðlast gildi.

Þetta nefndi ég bæði í umræðum um sóttvarnalögin og svo síðar í samtali við þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Svörin sem ég fékk ávallt voru þau að það samræmdist ekki stjórnskipan Íslands. Við værum búin að gefa ráðherra heimild til að gefa út reglugerð, það væri í það minnsta engin hefð og mögulega ekki lagastoð fyrir því að reglugerðir þyrftu svo að hljóta samþykki á þingi.

Nú er ég ekki löglærð, hæstv. forseti, en ég hef velt því fyrir mér hvernig við getum nálgast þetta mál. Á þeim tíma sem ég var hvað mest að ræða þetta kunni ég svo sem engin fordæmi í nálgun okkar hér á þingi en nefndi þó sérstaklega sölu ríkisbankanna. Í fjárlögum hefur verið heimild til handa fjármálaráðherra í mörg ár að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum. Engu að síður er mjög ákveðið lagaákvæði um það með hvaða hætti það yrði gert. Það er með því að það skal ræða það bæði við Seðlabanka og í efnahags- og viðskiptanefnd, með skýrslu og þess háttar. Með lögunum var þingið algerlega skrifað inn í umfjöllun um það mál. Það að selja banka er auðvitað ekki eins og að fást við heimsfaraldur, ég er ekki að reyna að líkja því saman, ég var bara að reyna að finna einhverjar leiðir. Það að selja banka getur átt sér langan aðdraganda og er þar af leiðandi ekkert flókið og ekkert óeðlilegt við það að þingið hafi einmitt mjög góða aðkomu að því. Í efnahags- og viðskiptanefnd fengum við undir lok síðasta kjörtímabils lög, nú man ég ekki einu sinni hvað lögin heita, en þau sneru að gjaldeyrishöftum. Í þeim lögum vorum við að búa til heimild til handa ráðherra að leggja aftur á gjaldeyrishöft. Auðvitað var skrifaður inn í lögin mjög skýr rammi um það hvað þyrfti að liggja undir, hvaða hætta þyrfti að vera yfirvofandi til þess að ráðherra gæti brugðist við með þessum hætti. Á þinginu skapaðist líka mjög mikil umræða um það að einn ráðherra ætti ekki að geta gripið til svo viðamikilla ráðstafana án þess að hafa við samráð við þjóðkjörið þing um það. Sú umræða endaði þannig hjá okkur í efnahags- og viðskiptanefnd að við settum inn ákvæði í lögin um að ef til þess skyldi nú einhvern tímann koma að ráðherra mæti það sem svo að þörf væri á gjaldeyrishöftum — ég vona innilega að það gerist aldrei — þyrfti hæstv. ráðherra að ræða þá fyrirætlun sína í efnahags- og viðskiptanefnd áður en til þess kæmi og jafnframt flytja þinginu skýrslu við fyrsta tækifæri.

Það er því sú nálgun sem ég geng út frá hér, frú forseti. Í þessu frumvarpi til laga um breytingar á sóttvarnalögum er ég í rauninni að skrifa inn í lögin að hyggist ráðherra gefa út reglugerð, sem honum er svo sannarlega heimilt samkvæmt sóttvarnalögum — þá erum við að fjalla um bæði 12. og 13. gr. laganna sem snúa að sóttvarnaaðgerðum innan lands annars vegar og hins vegar sóttvarnaaðgerðum á landamærum — skuli ráðherra kynna þá fyrirætlun sína í velferðarnefnd áður en þessar takmarkanir taka gildi, reyndar með þeim varnagla að það stendur „eða svo fljótt sem verða má verði því ekki komið við“. Og ef reglurnar sem ráðherra kynnir velferðarnefnd í tengslum við þetta yrðu settar skuli hæstv. ráðherra skila Alþingi skýrslu svo fljótt sem verða má þar sem komi fram ítarleg rök fyrir nauðsyn þessara reglna. Með þessu tel ég að það sé tryggt að ráðherra myndi ekki ráðast í takmarkandi sóttvarnaaðgerðir nema hann fyndi að fyrir því væri mikill stuðningur hér á þinginu.

Einhverjir hafa velt því fyrir sér af hverju hreinlega er ekki hægt að fara sömu leið og nágrannar okkar, Danir, og segja bara að velferðarnefnd þurfi að samþykkja slíkt. Ég hlakka til þeirrar umræðu sem getur skapast í nefndinni og að hitta þá lögspekinga sem geta ráðlagt hv. þingmönnum um hvort það sé raunverulega hægt. Samkvæmt því sem ég rakti hér áðan, samkvæmt samtölum mínum við ráðherra og þeirri umræðu sem átti sér stað í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, þá töldu flestir því vera illa fyrir komið. Ég tel að þetta sé alla vega leið til að nálgast það sem ég veit að hefur verið ákall mjög margra þingmanna. Það er eðlilegt að lýðræðislega kjörið þing fái betri aðkomu að upplýsingum, röksemdum og samtalinu um nauðsyn þess að leggja á sóttvarnaaðgerðir.

Ég ætla að taka það fram, virðulegur forseti, að eins og kemur fram í greinargerðinni með þessu frumvarpi þá er ég á þeirri skoðun að sóttvarnaaðgerðir þurfi ávallt að byggja á læknisfræðilegu mati. Það er aftur á móti þannig að þegar gripið er til slíkra aðgerða og þær farnar að vara til lengri tíma þá eru auðvitað ýmis önnur sjónarmið sem horfa þarf til. Þau kunna líka að vera læknisfræðileg og heilbrigðisleg, lýðheilsusjónarmið sem við höfum rætt mikið í þessum sal, áhrifin sem þetta kann að hafa á unga fólkið okkar, fólk sem einangrast heima, þunglyndi og fólk sem ekki fær nauðsynlega þjónustu innan heilbrigðiskerfisins vegna þess að heilbrigðiskerfið er afmarkað allt saman við heimsfaraldur. En það geta líka verið efnahagsleg áhrif og því höfum við svo sannarlega fundið fyrir í þessum faraldri og brugðist við með ýmsum aðgerðum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka mikilvægi þess að með þessu frumvarpi hér er ég ekki að segja að sóttvarnalæknir sé óþarfur eða það að hlusta á okkar helstu vísindamenn, lækna og þá sem best til þekkja í þessum málum. Ég er einfaldlega að segja að mér finnst eðlilegt að þjóðkjörið þing fái þessar upplýsingar og þetta samtal beint í æð. Þannig sæi ég fyrir mér að þegar sóttvarnalæknir skilar minnisblaði til heilbrigðisráðherra yrði það með fyrstu verkum heilbrigðisráðherra, eftir að hafa kynnt sér það minnisblað og það sem á því byggir, að mæta til fundar við velferðarnefnd, eiga samtalið við þá nefnd. Ég gæti vel séð fyrir mér að velferðarnefnd myndi jafnframt kalla til sóttvarnalækni eða aðra sérfræðinga á því sviði. Ef ráðherra ákveður svo í kjölfarið að setja á reglugerð í samræmi við minnisblaðið, eins og hefur nú verið reyndin hjá okkur í þessum faraldri, þá bærist þinginu líka skrifleg skýrsla með rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun.

Ég nefndi það áðan að í ágætissamtali við hæstv. heilbrigðisráðherra sem við áttum hér og höfum reyndar átt nokkuð reglulega samtal við heilbrigðisráðherra, sem er fínt til síns brúks — en við sem kjörnir þingmenn höfum engin frekari gögn en eitthvert minnisblað þar sem lagt er til hvernig við ætlum að komast út úr þessum faraldri. Þekkingu þingmanna á ástæðum og rökstuðningi fyrir ákvörðunum tel ég vera litla sem enga. Mér finnst það algerlega óásættanlegt þegar við upplifum það að í um tvö ár hefur hið opinbera lagt mjög svo íþyngjandi takmarkanir á samfélagið allt að þingið hafi ekki komið að raunverulegri umræðu um nauðsyn þess. Ég tel reyndar að ef lögin hefðu í rauninni verið svona þegar við afgreiddum þau hér síðast þá hefðu aðgerðir verið að mörgu leyti sambærilegar við það sem þær voru, alla vega fyrri hluta þessarar baráttu okkar. Ég upplifði það alla vega svo að það væri mikil samstaða um sóttvarnaaðgerðir og fólk skynjaði nauðsyn þess að grípa til aðgerða.

Við skulum líka rifja það upp að á þeim tímapunkti var þjóðin óbólusett, þekking okkar á kórónuveirunni var verulega lítil og það eina sem við sáum voru hryllingsmyndir frá útlöndum þar sem ekki var einu sinni tekið á móti fólki innan spítalanna. Það þurfti að hverfa aftur heim til sín vegna þess að heilbrigðiskerfið í þessum löndum var yfirkeyrt og gat engan veginn sinnt skyldu sinni. Sem betur fer tókst okkur að verja heilbrigðiskerfið og ég held að heilbrigðiskerfi okkar hafi komið vel út úr þessum faraldri þrátt fyrir að álagið á starfsmenn hafi verið gríðarlegt eins og alls staðar í heiminum, en sem betur fer hafa innviðir okkar tekist vel á við faraldurinn og þær aðgerðir sem við höfum þurft að beita.

Það er aftur á móti svo að núna á síðustu misserum hefur verið uppi gagnrýnni umræða um nauðsyn sóttvarnaaðgerða. Ég held að það sé bara gott. Ég held að það sé heilbrigt að sú umræða sé tekin. En ég hefði gjarnan viljað að sú umræða væri tekin á sama tíma og verið er að setja slíkar reglur. Það kann líka vel að vera að sú umræða hefði mögulega verið mun upplýstari hér á þingi ef þingmenn hefðu haft beinan aðgang að þeim upplýsingum sem ráðherra fær á hverjum tíma í gegnum velferðarnefnd og þá með skýrslu sem ráðherra myndi skrifa hér til þingsins. Eins og hæstv. ráðherra upplýsti í umræðum áðan þá hefur hann auðvitað frekari gögn og upplýsingar en birtast í minnisblaði frá sóttvarnalækni og almenningur og þingmenn hafa getað orðið sér úti um alla vega í flest þau skipti, held ég, sem reglugerð hefur byggst á minnisblaði.

Virðulegur forseti. Ég held að þessi leið sem ég er hér að mæla fyrir myndi styrkja heilbrigðisráðherra í ákvarðanatöku um viðbrögð við sóttvarnaástandi. Ég held það myndi styrkja bara lýðræðislegt ferli okkar og lýðræðislega kjörið þing. Mig langar þó að nefna að frumvarpið er til breytingar á sóttvarnalögum og innan sviga stendur: upplýsingagjöf til Alþingis, það er eitthvað sem starfsmanni þingsins fannst vera við hæfi. Ég myndi frekar vilja segja að þetta væri samráð við Alþingi. Ég ætla að geta þess líka að flutningsmenn með mér á þessu frumvarpi eru í rauninni allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir utan þá sem gegna ráðherraembætti eða eru forseti þings. Það er þau Ásmundur Friðriksson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Haraldur Benediktsson, Hildur Sverrisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason. Það má því með sanni hægt að segja að við höfum sameinast um þetta frumvarp í þingflokki Sjálfstæðismanna. Svo ber líka að geta þess að sumir hefðu kannski viljað ganga enn þá lengra en ég fór yfir það í upphafi ræðu minnar af hverju ég ákvað að nálgast málið með þessum hætti. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur nú lagt inn í samráðsgátt drög að frumvarpi um breytingar á sóttvarnalögum. Þar er farin sú leið að gerð er krafa á ráðherra um að upplýsa velferðarnefnd um reglugerðir sínar eftir á. Orðalagið hér er með þeim hætti að hann skuli gera það áður en reglugerðin taki gildi eða svo fljótt sem auðið er. Mér finnst það skipta máli. Mér finnst það áhersluatriði.

Ég átta mig líka á því að hv. þm. Sigmar Guðmundsson hefur lagt fram frumvarp ásamt fleiri þingmönnum um breytingar á sóttvarnalögum og vill ganga lengra. Ég hlakka til að taka umræðu um það og held að það fari vel á því að velferðarnefnd skoði mismunandi leiðir. En svona heilt yfir hefur mér heyrst vera nokkur samstaða um það að þingið þurfi að koma meira og betur að þessum ákvarðanatökum.

Í lokin vil ég segja að okkur hættir kannski svolítið til að ræða um þetta bara sem Covid-ástandið, sem ég vona að sé bara búið og vonandi er Covid farið og kemur aldrei aftur. Því miður mun mjög líklega koma upp aftur eitthvert sambærilegt ástand, kannski ekki alveg eins og þetta. Við erum að fjalla um sóttvarnalögin og við höfum örugglega öll lært á þessum tíma hversu mikilvægt er að hafa slík tæki og tól sem felast í sóttvarnalækni í lögunum sem slíkum og öllum þeim innviðum sem byggðir eru í kringum sóttvarnir. Þannig að ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að muna að við erum ekki bara að tala um eitthvert Covid sem við ætlum að kveðja heldur sóttvarnir til lengri tíma og hvernig lagaumhverfi á að vera í kringum það.