152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir ræðuna. Ef vandamálið hvað stjórnskipulega þáttinn varðar er það að þingið staðfesti ekki reglugerðir ráðherra þá hlýtur að vera hægt að finna lausn á því, eins og framsögumaður kom inn á, með því að ráðherra sé uppálagt að leggja það fram í formi þingsályktunartillögu eða eitthvað slíkt. Við þekkjum slíkt fyrirkomulag, t.d. þegar aðili fær samþykkta kyrrsetningargerð hjá sýslumanni þá þarf að fá hana staðfesta fyrir dómi innan tiltekins tímafrests. Þannig að ég trúi ekki öðru en að það sé hægt að finna fúnkerandi lausn á þessu.

En ég vil spyrja hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, nú er allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins meðflutningsmenn á þessari tillögu, utan ráðherra og forseta Alþingis, og Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í þessu stjórnarsamstarfi: Hafnaði heilbrigðisráðherra aðspurður því að viðhafa þetta verklag, vegna þess að þetta er nú raunverulega spjall við velferðarnefnd eins og þetta er lagt upp hérna? Var rætt við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) um að viðhafa þetta verklag, burt séð frá framlagningu þessa máls eða ekki?