152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:55]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, varpa einhverju frá sér ásýndarlega. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að það gæti virst þannig að mati einhverra. En ég ætla að leyfa mér að halda að það hafi ekki verið það sem vakti fyrir ráðamönnum á þessum tíma. Ég held að það sem hafi vakað fyrir ráðamönnum á þessum tíma hafi þvert á móti verið að sýna þessu ástandi og því vísindafólki sem hafði það verkefni í fanginu að leiða okkur í gegnum þetta, alla vega fyrstu skrefin, virðingu og færa einmitt pólitíkina ásýndarlega frá þessum fyrstu almannavarnaviðbrögðum því að hér vorum við í einhvers konar hættu. En hins vegar held ég að við höfum kannski stigið aðeins of langt skref í því og aftengt stjórnmálin of mikið, fært of langt í burtu.