152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:59]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Þetta er mjög góð spurning. Ég endurtek það sem ég kom inn á í ræðu minni og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var á sömu línu. Við viljum gjarnan stíga eins langt í því og hægt er að gefa lýðræðislegu kjörnu Alþingi rödd og tæki í þessu hlutverki gagnvart almenningi þegar svona stendur á, þegar það er hægt út frá hættuástandi, eða ekki hættuástandi öllu heldur, þegar það gengur upp stjórnskipulega. Það er ekkert gaman að tala um lögfræði í svona enda á hún ekki að skipta máli. Ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr því að þetta er samt allstórt skref miðað við það hvernig við erum með fyrirkomulagið núna. Það er auðvitað alveg hægt að stilla því þannig upp að þetta sé bara eitthvert kaffispjall við eina þingnefnd, og á svo sem ekkert að vera neitt meira en það, en við þekkjum það samt í raunheimum stjórnmálanna að það er aðhald á ráðherra. Það er pólitískt aðhald á ráðherra ef hann, í þessu sem við skulum kalla kaffispjalli, verður var við það að það mætir honum mikil andstaða og margar spurningar og miklar efasemdir. Þá er það orðið erfiðara fyrir ráðherrann að stíga samt sem áður fram með sínar reglugerðir eða hvað það er. Þannig að svarið er: Nei, ekki að forminu til. Að forminu til væri ég til í að sjá það ganga upp, að við gætum gengið lengra, en að efninu til er þetta skref sem skiptir máli.