152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:04]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá, þeim sem hafa talað og þingflokki Sjálfstæðisflokksins fyrir að koma með þetta mál. Eins og fram kom eru þetta allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki gegna ráðherradómi eða forseti Alþingis, þannig að það er hægt að segja að þingflokkurinn standi nokkuð hressilega á bak við þetta. Ég tek undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, hún fór rosalega vel yfir það hvað þetta er víðfeðmt mál, þegar við erum að tala um sóttvarnaráðstafanir, allar þessar takmarkanir, efnahagslegar aðgerðir, þetta hríslast niður í öll lög samfélagsins. Menntakerfið okkar er undir, heilbrigðiskerfið okkar er heldur betur undir, velferðarkerfin öll. Það má alveg færa rök fyrir því að stærri fjárhagsleg málefni hafi vart komið til þingsins á undanförnum árum, svona óvænt, síðan úr hruni, þannig að það er býsna mikið undir í öllu þessu og þingmaðurinn fór vel yfir það.

Ég hef svolítið verið þeirrar skoðunar undanfarnar vikur og mánuði að það hafi orðið vatnaskil í því að menn skilji mikilvægi þess að þegar verið er að taka ákvarðanir um svona viðamiklar ráðstafanir í ástandi sem varir lengi þá geti ekki verið eðlilegt að þjóðþingið sé ekki með í ráðum. Ég kaupi ekki þau rök að stjórnskipun okkar sé þannig meitluð í stein að það sé ekki hægt að koma ákvörðunum að einhverju leyti inn til þingsins. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ég minni á að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson nefndi það hér í þinginu á dögunum að honum fyndist eðlilegt að þetta kæmi hingað inn í þingið í formi þingsályktunartillögu. Ég sperrti eyrun mjög mikið þegar ég heyrði það því að akkúrat á þeim tíma vorum við þingmenn Viðreisnar að vinna mál sem gengur nákvæmlega út á það, að sóttvarnaráðstafanir séu lagðar fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu og þingið hafi þá eitthvað um málin að segja. Hins vegar er það auðvitað þannig að það verður að gefa framkvæmdarvaldinu, ráðherra og ríkisstjórn svigrúm til að bregðast við í skyndingu eins og gerðist í þessum faraldri fyrst. Þess vegna þarf að huga vel að því öllu.

Það sem ég hefði kannski viljað segja, af því að þetta mál er nú komið hingað inn, er að það er ekki þannig að þetta sé ekki pólitískt, það er ekki hægt að segja að sóttvarnir og takmarkanir, skerðingar á mannréttindum og allt sem því fylgir sé bara eitthvað faglegt sem einhverjir embættismenn eigi að segja til um hvernig eigi að gera og að ráðherrar í ríkisstjórn eigi síðan að vera framlenging á þeim vilja og að þingið hafi síðan ekkert um það að segja af því að það er allt of pólitískt. Það er mjög röng nálgun, sérstaklega í svona langvarandi ástandi. Maður skilur auðvitað að það verður ákveðið rof í keðjunni þegar það kemur allt í einu faraldur. Þetta eru einhvers konar náttúruhamfarir sem bresta á og þá þarf að vera svigrúm fyrir skyndilega ákvarðanatöku og hraða aðgerðaáætlun. En ef við erum föst á þeim stað að það geti bara verið 12 alþingismenn sem jafnframt eru ráðherrar sem fái að ræða þetta á ríkisstjórnarfundi, og ef við ætlum að bæta þinginu inn í þá geti það bara verið níu þingmenn til viðbótar sem eigi sæti í velferðarnefnd, þar af eru sex stjórnarþingmenn og þrír í stjórnarandstöðu, þá erum við búin að búa til einhvers konar kerfi þar sem er búið að kippa ansi miklu úr sambandi. 18 stjórnarþingmenn og þrír stjórnarandstæðingar sem hafa eitthvað um málið að segja, annars vegar í ríkisstjórn og hins vegar í velferðarnefnd. Það er einhver skekkja í þessu sem er ekki góð. Það er mjög brýnt að finna réttu leiðina til þess að í langvarandi ástandi hafi þingið einhverja aðkomu að ákvörðunum og geti staðfest mögulega tillögur sem lagðar eru fyrir þingið eða synjað þeim. Ég er alveg harður á því að við megum ekki tala eins og stundum er gert, að pólitísk umræða hér í þessum sal sé algjörlega aftengd öllu faglegu, að hér séu þingmenn sem geti ekki hlustað á vísindin, það séu bara ráðherrar í ríkisstjórn sem geti hlustað á vísindin. Það er auðvitað ekki þannig. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir orðaði þetta mjög vel í ræðu sinni áðan. Ef þingið hefði haft aðkomu að öllu því sem snertir þennan faraldur frá upphafi þá hefðu sóttvarnaráðstafanir sem gripið var til lengi fram eftir öllum faraldri vafalítið verið nákvæmlega, eins eða a.m.k. í mjög stórum dráttum eins og þær sem sóttvarnalæknir lagði til við ráðherra og ráðherra staðfesti síðan yfirleitt nokkuð óbreytt að mestu leyti.

Ég hef verið mjög hlynntur því, sérstaklega fyrst í faraldrinum, að settar yrðu á strangar takmarkanir til að bregðast við, til að verja líf og heilsu og til að verja heilbrigðiskerfið. Við vorum ekki bólusett í upphafi og hættan var miklu meiri en hún varð síðan. Síðan breytist þetta aðeins með delta-afbrigðinu og bólusetningunum, þá varð vígstaðan aðeins önnur. Þá var ég stundum pínulítið hugsi yfir því hvort það væri kannski verið að ganga of langt hér og þar, en ég var alltaf með það í kollinum að við yrðum samt að fara extra varlega vegna þess að heilbrigðiskerfið okkar allt væri undir. Ég held að langflestir hafi verið svolítið þar. Síðan er það núna í þessum ómíkron-faraldri sem ég hef orðið mjög hugsi yfir þessu, að ráðstafanir séu alveg á jaðri þess að standast ekki allar þær kröfur sem við gerum um meðalhóf og jafnvel jafnræði líka.

Eins og ég nefndi áðan þá erum við búin að vera svolítið föst í því að við erum með sóttvarnalækni — sem ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir og hann hefur lagt gott eitt til í gegnum allan faraldurinn, ótrúlega öflugur maður, og auðvitað fólkið sem er með honum líka og þessu fólki treysti maður algjörlega 100% — en úti í samfélaginu hefur umræðan samt þróast þannig að þetta sé eitthvað sem hann eigi í raun og veru bara að ráða þrátt fyrir að það hafi ítrekað komið ákall frá sóttvarnalækni sjálfum um að hann verði að vera leystur úr þeirri snöru að vera gerður ábyrgur fyrir þessu öllu því að hann komi bara með afmarkaðan hluta inn í jöfnuna. Síðan þurfi að taka tillit til efnahagslegra þátta. Það þurfi að velta fyrir sér hversu langt er hægt að ganga út frá ákvæðum stjórnarskrár og það þurfi að huga að þessu öllu í samhengi við skólakerfið og fleiri þætti sem við þekkjum öll mjög vel úr umræðunni. Við erum svolítið föst í því að taka umræðuna út frá þeim persónum og leikendum sem eru á sviðinu og eins og ég rakti áðan þá getum við ekki verið þar. Við verðum að hugsa þetta til lengri tíma. Þingið verður að fá að vera öryggisventill. Þingið verður að fá að vera einhvers konar varnagli. Ef menn eiga erfitt með að ímynda sér stjórnmálamenn í því hlutverki þá verða menn bara að snúa hlutverkunum aðeins við og gefa sér það að við völd séu stjórnvöld sem vilji fara mjög gáleysislega leið þegar kemur að sóttvörnum, mannréttindum og öðru slíku. Þá er gott að bæði ábyrgðarkeðjan sé skýr og að þingið hafi aðkomu og hlutverk.

En mér finnst þetta mál sem við erum að ræða hér ekki ganga nógu langt. Ég virði það hins vegar algerlega og ég veit að hugurinn á bak við þetta er að auka vægi þingsins. Ég kaupi ekki þau rök að ekki sé hægt að finna betra fyrirkomulag. Ég minni á það frumvarp sem við í Viðreisn höfum lagt fram og kemst vonandi á dagskrá síðar, en þar er gert ráð fyrir því að opinberar sóttvarnaráðstafanir séu bornar undir Alþingi með þingsályktunartillögu. Það var allt saman borið undir lögfræðinga sem starfa á þinginu og komu ekki fram neinar athugasemdir um að það væri hæpið að gera það, að sú ráðstöfun myndi vera þess eðlis að hún bryti í bága við þrískiptingu ríkisvaldsins.

Og talandi um það, af því að núna er í samráðsgáttinni frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á sóttvarnalögum, heildarendurskoðun, þá er ég búinn að renna aðeins í gegnum það. Margt er þar alveg ágætt, til að mynda að það sé sérstök farsóttarnefnd sem geri tillögur til ráðherra frekar en að það sé sóttvarnalæknir, einn einstaklingur sem við þekkjum andlitið á, það eru fleiri sem koma að. Það tekur þetta kannski aðeins úr þessum persónulega búningi, sem ég held að sé gott til lengri tíma litið. En það er svolítið áhugavert að lesa greinargerðina. Þar er einmitt verið að tala fyrir sams konar fyrirkomulagi og tillaga þingmanna Sjálfstæðisflokksins gengur út á, mjög svipað. Þar er vísað í fyrirkomulagið sem er í Danmörku og svo segir hér, ef ég má aðeins vitna í greinargerðina, að ekki hafi alltaf reynst vel að fela Alþingi aðkomu að ákvörðunum ráðherra og upp kunni að koma álitaefni um hvort nokkur beri ábyrgð á ákvörðunum um samkomutakmarkanir ef þingið kemst að annarri niðurstöðu en ráðherrann leggur upp með. Mér finnst þetta svolítið sérstök útlegging á því hlutverki sem Alþingi Íslendinga á að hafa í samfélaginu. Svo segir líka:

„Jafnframt hafi það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði hér á landi reynst vel í Covid-19 faraldrinum þar sem styrkleikar lítillar stjórnsýslu hafi notið sín þannig að unnt hafi verið að taka ákvarðanir hratt og örugglega. Raunar hafa íslensk stjórnvöld hlotið lof á erlendri grundu fyrir snögg og árangursrík viðbrögð við faraldrinum strax frá upphafi.“

Gott og blessað. Svo kemur hérna setning sem mér finnst áhugaverð:

„Enn fremur er það mat starfshópsins að með því að færa þessar ákvarðanir til Alþingis yrði alger eðlisbreyting á forsendum ákvarðana frá því að byggjast í grunninn á faglegum sjónarmiðum yfir á vettvang stjórnmálanna.“

Þarna kem ég aftur að upphafinu og því sem er kannski inntakið í því máli sem við erum að ræða hérna núna. Það er svo skrýtið hvernig menn hugsa þetta. Ákvarðanir fara frá því að byggjast í grunninn á faglegum sjónarmiðum yfir á vettvang stjórnmálanna. Hvað segir þetta um ríkisstjórn Íslands? Á ég að skilja þetta þannig að það sé bara hún sem geti tekið tillit til vísindanna eða er hún ekki pólitísk? Það eru ráðherranefndir starfandi út af faraldrinum þar sem verið er að samþætta sjónarmið sem koma til grundvallar tilteknum ákvörðunum vegna þess að það þarf að jafna hluti út og taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Er það ekki pólitík? Er það ekki pólitík sem við höfum séð í gegnum faraldurinn þegar greinilegur hugmyndafræðilegur munur er á milli þess flokks sem er lengst til hægri í ríkisstjórninni og talar fyrir frelsi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og annað, og hinna sem vilja fara varlegar? Það er bara mjög skýr hugmyndafræðileg pólitík sem hefur birst okkur í átökum innan ríkisstjórnarinnar um það hvernig bregðast eigi við þessum faraldri. Þess vegna er alveg ótrúlega skrýtið að það skuli koma fram í greinargerð með máli sem heilbrigðisráðherra leggur fram að ef þingið hafi eitthvað um þetta að segja þá séum við farin frá faglegum sjónarmiðum og yfir á vettvang stjórnmálanna. Við verðum að komast út úr þessari hugsun. Ég veit að þeir hv. þingmenn sem flytja þetta mál sem við ræðum núna eru sammála mér í þessu. Við þingmenn getum alveg hlustað á vísindin. Við getum alveg tekið tillit til hinna ýmsu sjónarmiða. Það er okkar hlutverk. Þegar er verið að skerða mannréttindi, þegar er verið að dæla fjármagni úr ríkissjóði, þegar allt skólakerfið okkar er undir, allt heilbrigðiskerfið okkar er undir, þegar við erum að ræða um skerðingar á atvinnuréttindum og annað — ef við getum ekki rætt pólitík í samhengi við það og jafnframt tekið tillit til faglegra þátta þá er eitthvað mikið að. Ég vona heitt og innilega að þeir þingmenn sem leggja þetta mál fram núna séu ekki innstilltir á sama hátt og kemur fram í greinargerð heilbrigðisráðherra, því að sú afstaða sem þar er er eiginlega hreinlega til skammar.

Ég tók eftir því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir og hv. þm. Hildur Sverrisdóttir voru báðar opnar fyrir því að skoða það hvort ekki væri hægt að ganga lengra en að fela bara velferðarnefnd að fara yfir þessi mál. Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér þá tillögu sem við í þingflokki Viðreisnar höfum lagt fram. Hún gengur lengra. Hún er í ætt við það sem formaður Sjálfstæðisflokksins sagði hér á Alþingi á dögunum og það komu ekki neinar stjórnskipulegar athugasemdir við yfirlestur hér hjá sérfræðingum þingsins þegar hún var lögð fram. Ef menn hafa einhverjar áhyggjur af því að þetta snúist um reglugerð sem sé erfitt að láta þingið staðfesta þá skrifum við okkur bara út úr því. Það er ekkert flókið mál að hanna regluverkið okkar þannig að þingið geti tekið þátt í pólitískri og faglegri umræðu sem byggir á vísindum, hér í þessum sal, af því við erum lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins í landinu, við höfum umboð okkur úr kosningum. Það verður að koma málum þannig fyrir að þingið hafi meira um þetta að segja.