152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:31]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir þetta. Hvernig komumst við á þennan stað? Þetta er nefnilega góð spurning. Ég held að fyrsti þátturinn í því hafi verið sá að við vorum óttaslegin og hrædd og við vissum ekki hvað tæki við. Þá erum við svo heppin að við erum með fólk sem vann sér traust þjóðarinnar á örskotsstundu, og þá er ég að tala um þríeykið. Við vorum saman í upphafi, við skildum og skynjuðum ógnina. Við festumst einhvern veginn í þeirri hugsun að þetta ætti í raun og veru að vera fagleg ákvörðun, eins og að vísindalegt mat sé algerlega eitt og algilt og nái yfir allt. Það er auðvitað ekki þannig. Eins og ég rakti áðan þá eru öll lönd í heiminum að eiga við þennan faraldur og mjög mörg þeirra styðjast við mjög færa og öfluga vísindamenn og sinna því að kalla eftir upplýsingum en grípa til mjög mismunandi ráðstafana til að bregðast við faraldrinum. Það er bara mat á aðstæðum, það eru mismunandi aðstæður á hverjum stað og alls konar hlutir sem geta haft þessi áhrif. Ég held að það hafi kannski verið fyrsti parturinn af þessu. Og síðan var það auðvitað þannig, svo ég slengi því bara fram, að ríkisstjórninni fannst bara þægilegt í upphafi faraldursins og fram eftir öllu að hafa þetta með þessum hætti, að fjarlægja sig svolítið frá málinu. Það væri ekki verið að ræða um þetta eins og þetta væri meiri háttar mál sem ætti að teygja anga sína inn í pólitíska umræðu, því að það er nú heldur betur margt pólitískt í þessu öllu þótt að við hlustum auðvitað öll á vísindin og vísindamennina. Mér fannst hv. þm. Hildur Sverrisdóttir fara mjög vel yfir þetta áðan. Hún talaði um að það hefði orðið rof þarna á milli. Það gerist með þeim hætti að við fáum (Forseti hringir.) fólk í forsvar sem við treystum vel, ríkisstjórninni fannst það þægilegt og þannig spilaðist þetta. (Forseti hringir.) Núna þegar ógnin er minni skynjum við þetta með öðrum hætti og föttum að við erum kannski ekkert endilega í brjálæðislega heilbrigðu ástandi.