152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:36]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir. Já, ég er sammála því að það er ákveðin hætta á því. Ég ætla hins vegar ekki að gera flutningsmönnum málsins svo illt til að halda að það sé endilega ásetningur þeirra. Ég held ekki. Ég hef verið að fylgjast með umræðum í þinginu núna um sóttvarnir og maður tekur eftir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala með öðrum hætti en þingmenn hinna tveggja stjórnarflokkanna. En ég ímynda mér að mönnum gangi ofur einfaldlega það til að koma hlutunum úr þeim farvegi að þetta séu bara örfáir menn sem hafi í raun og veru allt um málið að segja og þingið ekki neitt. Ég trúi því alveg að það hafi verið hreyft einhverjum stjórnskipulegum fyrirvörum við þetta. Svo ég orði það skýrt: Ég held að það sé ekki tilgangur þeirra sem flytja málið. Ég hef ekki skynjað neitt annað en að þau séu mjög áfram um að þingið fái þetta hlutverk og ég held að það endurspegli bæði umhyggju fyrir þinginu og þingræðinu og líka því valdaleysi sem þeir þingmenn upplifa í stjórnarsamstarfinu að vera sífellt undir þegar kemur að samkomutakmörkunum. Ég hugsa að hv. flutningsmönnum þyki ekki verra að komast úr þeirri spennitreyju og fá þessi mál í breiðari umræðu þar sem eru a.m.k. fleiri stuðningsmenn við þeirra sjónarmið. En ég vil hins vegar taka það mjög skýrt fram að ég held að þeir Sjálfstæðismenn sem mest gagnrýndu sóttvarnaráðstafanir sem gripið var til í upphafi faraldursins hafi nú verið á miklum villigötum á fyrstu mánuðum þessa faraldurs.