152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:56]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að draga fram mikilvægi bólusetningar. Mér fannst það svo sláandi að vera á Evrópuþinginu í síðustu viku og átta mig á því hvernig staðan er í mörgum Evrópulöndum í dag. Þeirra stóra vandamál víða við að komast í gegnum faraldurinn er hvað bólusetningarhlutfallið er lágt. Þetta hefur tekist svona farsællega hér og sem betur fer hefur pólitíkin verið svolítið sammála um það líka að tala fyrir því og ekki gegn því og samfélagið er með okkur. Þess vegna erum við í þeirri stöðu nú að geta tekið þessi mikilvægu skref og komumst, held ég, vonandi hratt og vel út úr þessu á meðan við sjáum margar aðrar þjóðir í Evrópu vera að ströggla áfram í óskaplegu basli vegna þess að menn hafa einhvern veginn misst tökin á þessu. Það er uppi vantrú og slíkt og líka í pólitíkinni, sem sagt hjá fólkinu sem hlustað er á, og þannig hefur það bakað þeim miklu meiri þrautir en kannski er ástæða til. Þetta er mjög mikilvægt og við værum ekki stödd þar sem við erum í dag ef við værum ekki búin að ná þessum árangri og það væri ekki þessi samstaða um bólusetningarnar. Og það er líka það sem við erum að tala um, það er gjörólíkt ástand í dag en var fyrir ári eða tveimur, algerlega.