152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og sérstaklega fyrir að draga það fram hvað frelsi er í rauninni margþætt og hvað það eru margir ólíkir hagsmunir sem vegast á, sérstaklega þegar kemur að, t.d. eins og hv. þingmaður talaði um, frelsi fólks með undirliggjandi sjúkdóm til að geta lifað góðu lífi og farið út úr húsi. Það er mjög mikilvægt að draga þetta fram í þessari umræðu, að láta ekki eins og frelsið snúist bara um atvinnufrelsi þeirra sem reka veitingastaði eða frelsi hinna fullfrísku. Ég skynjaði þó í ræðu hv. þingmanns svona ákveðna tortryggni, efasemdir og jafnvel andstöðu við aukna aðkomu Alþingis að ákvörðunum um sóttvarnaaðgerðir og -takmarkanir. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann treysti síður kjörnum fulltrúum á Alþingi, fulltrúum í t.d. velferðarnefnd eða ef það væri sérstök þingkjörin nefnd hér á Alþingi sem fjallaði um sóttvarnamál og sóttvarnatakmarkanir, hvort hann treysti síður þinginu til að hlusta á ráðgjöf sérfræðinga og vega og meta ólík sjónarmið og taka farsælar ákvarðanir um líf og heilsu og mannréttindi. Treystir hv. þingmaður síður Alþingi til þessara verka heldur en þeim stjórnmálamanni sem er heilbrigðisráðherra hverju sinni?