152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[19:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég á ekki sæti í forsætisnefnd Alþingis en vegna umræðu sem átti sér stað hérna áðan um fundarstjórn forseta þá finn ég mig knúinn til að koma hingað upp til að verja heiður þeirrar þingnefndar. Eins og komið hefur fram í tilkynningu á vef Alþingis þá var það forseti Alþingis sem tók ákvörðun um aðild Alþingis að flutningi ríkisendurskoðanda yfir í nýtt menningar- og viðskiptaráðuneyti án auglýsingar. Forsætisnefnd Alþingis ber ekki ábyrgð á þeim gjörningi og þeirri ákvörðun. Það voru ekki greidd atkvæði um þá ákvörðun á fundi forsætisnefndar, fundi sem boðað var til samdægurs og þar sem fundargögn bárust ekki fyrr en eftir að fundur hófst. Ég vildi koma þessu á framfæri og lofa því að þetta verður ekki mín síðasta ræða um þetta mál.