152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum í dag komin á allt annan stað en við vorum þegar við sögðum í upphafi að við vildum gera frekar meira en minna. Við erum með allt aðrar aðstæður uppi í dag. Það sem tölurnar sýna okkur er að okkur tókst það sem að var stefnt, þ.e. að brúa bilið, koma fyrirtækjum í skjól, skapa forsendur fyrir mannaráðningum að nýju og sjá til þess að þegar það létti til hjá fyrirtækjum, m.a. vegna þess að við gátum betur opnað landamærin o.s.frv., þá myndu fyrirtækin ráða til sín að nýju. Þetta hefur allt gengið eftir, nákvæmlega eins og við vonuðumst til að myndi gerast. Vaxtalækkunin gagnaðist svo sannarlega íbúðafjárfestum eða kaupendum á undanförnum árum, gagnaðist heimilunum, hjálpaði til við að auka kaupmáttinn. Undanfarin ár, sem er líka merkilegt í sjálfu sér, í miðjum heimsfaraldri, sáum við mesta fjölda nýrra íbúðakaupenda, þ.e. fyrstu íbúðarkaupendur hafa aldrei verið fleiri en núna nýverið. Þegar spurt er núna hvort allt þetta fólk sé komið í vandræði vegna þess að það steig inn á fasteignamarkaðinn þá segi ég: Alls ekki. Það eru að berast okkur mælingar á hækkandi verðbólgu og það er áhyggjuefni út af fyrir sig. En fólk sem er með langtímalán, ég tala nú ekki um verðtryggð lán, er í skjóli fyrir skammtímaáhrifum af slíku. Á óverðtryggða lánaendanum getur greiðslubyrðin hækkað og það getur verið ákveðið áhyggjuefni. En þá skiptir máli sú stefna sem ég hef talað fyrir hérna ár eftir ár að fólk geti endurfjármagnað lán sín án þess að borga stimpilgjald, eins og gilti hér fyrir örfáum árum síðan. Þá kom ríkissjóður og tók skatta af því þegar fólk fór og endurfjármagnaði lán. Þetta höfum við aflagt. Kraftmikill og vel fjármagnaður fjármálamarkaður er alger grunnforsenda þess að hægt sé að njóta góðs af því þegar vextir lækka og koma sér í skjól ef þess þarf með endurfjármögnun lána. Ég held að (Forseti hringir.) enn sem komið er séum við ekki uppi með slíkan vanda, þó að það sé ástæða til að taka verðbólgutölurnar alvarlega, að það sé hægt að ræða um þetta á þessum forsendum.