152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég átta mig alveg á því að við erum í öðrum veruleika og það þarf að miða aðgerðirnar við það En það er áhugavert að hæstv. ráðherra talaði bara um fyrirtækin og stöðu þeirra en minna um heimilin. Það sem ég er að ræða hér um er að ríkisstjórnin gaf óraunhæfar væntingar þegar vaxtalækkunarferlið fór af stað og hæstv. fjármálaráðherra talaði beinlínis um að við værum allt í einu stödd í nýjum veruleika og gaf fólki, þessu nýja fólki sem var að feta sig inn á húsnæðismarkað, væntingar um það að þannig yrði það um ókomna framtíð.

Ég spyr: Telur hæstv. fjármálaráðherra sig virkilega ekki bera einhverja ábyrgð á stöðunni með kannski fullglannalegum loforðum sem byggðu á hans ábyrgu efnahagsstjórn síðustu tíu ár, að eigin sögn? Og ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin virkilega ekki að gera neitt í þessum málum? Mun hún ekki mæta mögulegum vaxtahækkunum á næstunni með einhverjum mótvægisaðgerðum til að lina þá vandræði þessa fólks? Og það er áhugavert ef skoðuð eru blöðin sem gefin eru út í nágrannalöndunum að það er verið að bregðast við sams konar vanda sem er uppi í efnahagsmálum þar með sértækum úrræðum; í Bretlandi, í Noregi, mjög víða, þrátt fyrir að vextir þar séu mörgum sinnum lægri en þeir eru hérna. Þar er verið að hækka úr 0% eða 0,5% um einhverja punkta. Hér erum við í allt öðrum veruleika. Og ég spyr hæstv. fjármálaráðherra aftur: Ætlar hann virkilega ekki, ef hann ætlaði að eigna sér það sem þó hefur vel gengið í þessum faraldri, að gangast við því að þetta var glannalegt tal fyrir einu og hálfu ári síðan og gera eitthvað til að mæta þeim erfiðleikum sem bíða fólks núna?