152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem mér hefur gengið erfiðlega með er að fá Samfylkinguna til að skilja að þegar það tapast 20.000 störf í einkageiranum þá þurfum við að hafa áhyggjur af fyrirtækjunum. (Gripið fram í.) Það sem Samfylkingin vildi gera við þær aðstæður var að ráða fleiri opinbera starfsmenn. Mínar áherslur voru allar á það að endurheimta þessi störf vegna þess að störfin sem töpuðust í heimsfaraldrinum voru öll í einkageiranum. (Gripið fram í.) Þess vegna skipti staða fyrirtækjanna svona miklu máli. Þetta er algjört grundvallaratriði. Við sjáum líka hvað gerist hjá ríkissjóði þegar illa gengur í einkageiranum. Þá fór hallinn skyndilega í 100 milljarða í mínus, í 100 milljarða halla.

Berum við ábyrgð á því að hér hafi verið lægstu húsnæðisvextir í Íslandssögunni? Ég skal taka ábyrgð á því. Ég er stoltur af því. Það er mjög mikill munur á þeim veruleika sem blasti við mér sem ungum manni, fyrstu íbúðarkaup mín voru gerð þannig að ég fékk húsbréf í hendurnar og þurfti að taka á mig 20% afföll. Ég fékk bara 80% af láninu sem ég skrifaði upp á greidd út út, 20% hurfu um leið. Svo voru 8% vextir. Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í því að tryggja þann efnahagslega stöðugleika sem hefur leitt til lægsta vaxtastigs í hagsögunni hjá okkur. Vextir eru núna hækka, það eru ákveðin hættumerki uppi en við þeim getum við brugðist. Við megum bara ekki fara fram úr okkur og við þurfum að gera það sem við getum með opinberum fjármálum. Seðlabankinn er sjálfstæður og hefur tekið ákvarðanir sínar um vaxtahækkanir á þeim forsendum og svo skiptir auðvitað máli að við finnum leiðir sem styðja við farsæla niðurstöðu á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli. Ég er ekki að gera lítið úr því að það dragi úr ráðstöfunartekjum heimilanna með því að vextir geti hækkað á húsnæðislánum. Það er ekki gott mál, en það er enginn slíkur skellur orðinn að samfélagið sé komið í eitthvert uppnám. Það er enginn slíkur skellur orðinn. Það getur hins vegar gerst ef menn halda ekki rétt á spöðunum í framhaldinu.