152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:05]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir yfirferðina á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 faraldursins. Það er stundum sagt að það auðveldasta í heimi sé að vera vitur eftir á og ég held að það sé mikið til í því. Af hverju nefni ég það hér? Einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að þegar þessi faraldur fór af stað höfðum við ekki hugmynd um það hvernig hann myndi þróast eða í hvaða áttir hann færi. Sú staða sem uppi hefur verið í íslensku þjóðfélagi og í raun og veru um heim allan er fordæmalaus eins og margoft hefur komið fram og eitthvað sem ég held að ekkert okkar sem sitjum hér inni höfum nokkurn tímann látið okkur óra fyrir að við sem þjóð ættum eftir að þurfa að takast á við. Í upphafi faraldursins óraði engan fyrir því hversu langt þetta tímabil yrði og í fyrstu spám í febrúar 2020 var horft til vors eða jafnvel hausts það ár. Nú í dag vitum við að raunin er önnur og veruleikinn sá að þó við teljum okkur sjá ljósið í enda ganganna er ekki með fullu víst hvenær hægt er að segja að verkefninu sé lokið.

Frú forseti. Þegar ég segi lokið þá er ég að tala um hvort tveggja, farsóttina sem slíka og einnig þær gríðarlegu efnahagslegu afleiðingar sem hún hefur valdið okkur sem þjóð og þá hvenær við getum sagt að við höfum náð okkur upp úr þeim efnahagslega dal sem þjóðin og í raun og veru öll heimsbyggðin er í. Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í eru umtalsverðar og að mínu mati hafa þær virkað mjög vel til að slá á þau áhrif sem að óbreyttu hefði skollið á af fullum þunga á íslenskt efnahagslíf, fyrirtæki og heimili í landinu með algerlega ófyrirséðum afleiðingum. Því langar mig að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort reynt hafi verið að meta áhrif á íslenskt samfélag ef ekki hefði verið gripið til neinna aðgerða af hálfu stjórnvalda í þessum faraldri.