152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum lagt fyrir þingið skýrslur sem byggðu á vinnu sem sérstakur starfshópur skilaði af sér til mín og sú vinna var hugsuð til þess að leggja mat á þörfina fyrir efnahagslegar aðgerðir, áhrifin af því að gera of lítið, en við vorum líka að reyna á þeim tíma að leggja mat á áhrifin af því ef við gerðum mögulega of lítið í sóttvarnaráðstöfunum. Það var mjög skýrt og kom ágætlega fram, held ég, svona eftir því sem við fórum lengra inn í þennan faraldur, að þegar ekkert er gert vegna hraðrar útbreiðslu smita þá skapast ákveðið óttaástand. Ísland hefði ekki verið álitlegur kostur sem ferðamannastaður, svo dæmi sé tekið, ef hér hefðu verið hæstu smittölur í Evrópu á þeim tíma eða mestar innlagnir á spítala o.s.frv. Það hefur aftur áhrif á efnahagsleg umsvif og hegðan fólks. Ég er ekki með neinar tölur fyrir hv. þingmann um það hvað það hefði kostað okkur að gera ekki neitt. En það er engin spurning að efnahagslega lægðin varð ekki jafn djúp vegna þess sem ákveðið var að gera. Hvað var það sem við ákváðum að gera? Við vorum annars vegar að halda að okkur höndum og leyfa þessum sjálfvirku sveiflujöfnurum, sem svo eru nefndir, bara að vinna sína vinnu. Það þýðir t.d. að þegar efnahagsumsvif skreppa saman þá lækka tekjur ríkisins af því að skattstofnarnir veikjast. Við héldum að okkur höndum þá, við fórum ekki í skattahækkanir til að endurheimta það, þvert á móti. Við bara sættum okkur við tekjutapið. En við gerðum meira en þetta. Við fórum á gjaldahliðinni í ný útgjöld þar sem við töldum að það gæti gagnast okkur til lengri tíma og þá er ég sérstaklega að vísa til fjárfestingarátaksins. Þar fyrir utan fórum við í sérstakar efnahagsaðgerðir til stuðnings hagkerfinu þar sem við töldum að mest væri þörfin. Þegar við horfum til baka og spyrjum okkur hvert þessir fjármunir runnu sem fóru úr ríkissjóði sem sérstök Covid-úrræði út í atvinnulífið annars vegar, þá sjáum við að þeir fóru einmitt þangað sem vandinn var mestur, þ.e. til ferðaþjónustunnar. Og hvernig gögnuðust þessir fjármunir allir til þess að styðja við heimilin? Jú, við vorum að standa með heimilum þar sem hafði orðið röskun á tekjum og fólk hafði verið að missa vinnuna. Það eru þær tölur sem ég er að vísa til þegar ég er að tala um að kaupmáttur ráðstöfunartekna allra tekjutíunda á vinnumarkaði var vaxandi í gegnum faraldurinn. Það er mjög merkileg staðreynd.