152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:11]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið. Það er öllum ljóst að efnahagslega verkefnið sem við fengum í fangið í kjölfar faraldursins er og var gríðarlegt. Ég vil bara nota þetta tækifæri hér og hrósa stjórnvöldum fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og fyrir þá samstöðu sem náðist hér, m.a. á Alþingi Íslendinga, um þær. Það er alveg ljóst eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan að þær aðgerðir hafa minnkað þá sveiflu og minnkað þau efnahagslegu áhrif sem faraldurinn hefði getað haft á samfélagi okkar. Okkur getur að sjálfsögðu greint á um það hvort það var nóg gert eða of mikið en ég held að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og var gripið til séu eitthvað sem við getum byggt á til næstu ára.

Ef maður skoðar aðeins aðgerðirnar þá eru þær verulegar. Það hafa verið greiddir út um 10 milljarðar í viðspyrnustyrki, 11.628 umsóknir, 10.600 afgreiddar. 2,8 milljarðar í lokunarstyrki, endurgreiðsla virðisaukaskatts nemur um 13,3 milljörðum og stærsti hlutinn, 9 milljarðar, er vegna nýbygginga og viðhalds íbúðarhúsnæðis. Frestun skattgreiðslna er upp á 11,3 og útgreiðsla á séreignarsparnaði er 37 milljarðar. Auk þess má nefna greiðsluskjól lána, úrræði sem er tímabundið, greiðslu launa í sóttkví, ráðningarstyrki og Hefjum störf, hlutabótaleiðina, tekjufallsstyrki, brúarlán, greiðslu launa í uppsagnarferli auk ferðagjafarinnar, svo eitthvað sé nefnt. Í ljósi þessarar upptalningar minnar á þessum verkefnum og því að staða ríkissjóðs sem blasir við okkur núna er mun betri (Forseti hringir.) en spár gerðu ráð fyrir langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé hans mat (Forseti hringir.) að staðan sem við höfum náð í efnahagslífi þjóðarinnar og staða ríkissjóðs sé að hluta til eða að öllu leyti til komin vegna þeirra aðgerða sem gripið var til í kjölfar faraldurs.