152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla í þessu sambandi að leyfa mér að vísa til síðustu samþykktrar fjármálaáætlunar þar sem við vorum að vinna áfram með mat á áhrifum okkar aðgerða og í fjármálaáætlun sem kom fram vorið 2020 vorum við sömuleiðis að velta fyrir okkur hvað gerðist ef við færum fram úr okkar björtustu spám og hvaða þýðingu það hefði bara yfir höfuð ef við fengjum bjartsýnu spána en ekki þessa grunnspá. Það sem hefur raungerst eru í raun og veru bjartsýnu spárnar okkar og já, ég vil nú meina að það sé að verulega leyti til vegna þess að okkur hefur tekist vel til í þessari fyrirætlan okkar að verja heimilin og fyrirtækin á erfiðasta tímanum. En síðan eru að sjálfsögðu alltaf margir þættir sem við náum ekki alveg að stjórna. Það skiptir máli hver staðan er í viðskiptalöndum okkar. Það skiptir máli hvernig staðan er í alþjóðlega fluginu. Ferðavilji skiptir máli, ekki bara Íslendinga heldur annarra. Það er margt sem spilar inn í sem við höfum ekki fulla stjórn á. En miðað við erfiða stöðu þá held ég að það hafi á margan hátt tekist vel hjá okkur og það er ástæðan fyrir því að við lögðum fyrir þingið fjármálastefnu þar sem við drógum aðeins úr áherslunni á að stöðva skuldasöfnunina jafn skjótt og áður hafði verið áætlað og frestuðum því um eitt ár í nýju fjármálastefnunni, ýttum því einu ári lengra inn í framtíðina að stöðva hækkun skuldahlutfallsins, enda eru skuldatölurnar miklu betri heldur en áður var spáð. Það breytir því ekki að það er mín skoðun að þessi mikli halli ríkissjóðs er alvarleg staða og við þurfum að finna leiðir til þess á komandi árum (Forseti hringir.) að standa við markmið um að stöðva skuldasöfnunina og ég held að á endanum (Forseti hringir.) verðum við dæmd af því hvernig við stóðum okkur á árunum eftir að áhrifa faraldursins hætti að gæta.