152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:16]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargóða lýsingu á stöðunni. Hér hafa miklar fórnir verið færðar af bæði einstaklingum og fjölskyldum og fyrirtækjum. Allt of mörg fyrirtæki hafa fallið, misst úthaldið, en við í Flokki fólksins höfum á móti fagnað þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til til að fá rönd við reist og fögnum því sem hér verður nánar lýst í dag sem eru styrkir til að reyna að hjálpa mönnum að halda þetta út. Ég held að við þurfum að fagna því líka, eins og fram hefur komið, að staða ríkissjóðs var bara harla góð þegar þetta fárviðri brast á, m.a. vegna hins óvæntan búhnykks stöðugleikaframlagsins upp á einhverja 630 milljarða, ef ég man rétt, 100 milljörðum meira en neikvæði rekstur ríkissjóðs á undanförnum misserum sem ráðherrann lýsti áðan. En nú finnst mér ástæða til að hleypa kappi í kinnar þeirra sem hér hafa kannski þurft verst að líða og þá er ég að höfða til þeirra verst settu í samfélaginu. Miðað við þá stöðu sem við blasir, þann mikla ábatasama iðnað sem er tiltölulega nýr hér auk ferðaþjónustunnar, sem er landeldi og sjóeldi, sem og ýmsar hagfelldar ytri aðstæður sem við blasa, er ekki full ástæða til þess að gefa fólki von um að hér verði hægt að bregðast við þessu verðbólguskoti og lina það sem allra mest?