152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar mjög eindregið að röng viðbrögð við þessum verðbólgutölum geti aukið á verðbólguvandann. Þetta eru auðvitað tölur sem eru töluvert frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans og eru áhyggjuefni. Við þurfum aðeins að gefa okkur tíma til að greina tölurnar og spyrja hvað veldur og við sjáum þessa tvo áberandi stærstu áhrifavalda, þ.e. annars vegar hækkun húsnæðisverðs og svo hins vegar aðflutta verðbólgu. Það er töluverð verðbólga í Bandaríkjunum, bara ein sú mesta í mjög langan tíma og á evrusvæðinu er sömuleiðis um 5% verðbólga þannig að það er ekki við öðru að búast við þær aðstæður en að við finnum fyrir áhrifum af verðbólgu í öðrum löndum í verðlagi á innfluttri vöru. Þetta heimskerfi sem við búum við í dag er einfaldlega þannig að áhrifanna gætir þvert á öll landamæri, verðbólgan virðir þau ekki.

Í þessu sambandi myndi ég vilja og draga fram í umræðunni að það eru ekki undirliggjandi veikleikar sem við tökum með okkur áfram inn í framtíðina sem eru aðalorsakavaldurinn, heldur eru alveg vísbendingar um að við gætum séð fyrir endann á þessum verðhækkunum. Þess vegna er mikilvægt að bregðast ekki við með röngum hætti á þessum tímapunkti. Að því sögðu vísa ég bara aftur í fyrri orð mín hér, (Forseti hringir.) við þurfum á því að halda núna að ná góðu samspili þeirra sem hér koma helst að málum.