152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tímann aðeins til þess að ræða um húsnæðismarkaðinn og veikleika sem ég tel vera til staðar á þeim markaði. Ég held að það hafi ekki átt að koma neinum á óvart að þegar vextir voru lækkaðir þá myndi eignaverð hækka. Það gerðist á hlutabréfamörkuðum, það gerðist á húsnæðismarkaðnum, það gerðist á húsnæðismarkaðnum á Íslandi, það gerðist í Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi. Húsnæðisverð hækkar ef vaxtaprósentan fer hressilega niður. Það gerist alls staðar alltaf, a.m.k. í frjálsum hagkerfum og opnum.

Varðandi þessa lágu vexti vil ég líka segja að það er ekki lögmál á Íslandi með íslenska krónu, okkar eigin gjaldmiðil, að vextirnir þurfi alltaf að vera miklu miklu hærri en annars staðar. Það ræðst af hagrænum þáttum. Þetta vaxtastig sem við höfum búið við, þótt við höfum ekki séð það áður þá held ég að það geti til lengri tíma vel verið raunhæft vaxtastig ef aðrir þættir í hagkerfinu eru í góðu jafnvægi. Ég trúi því. Ég trúi því að við þurfum ekki að taka upp annan gjaldmiðil til þess að njóta slíkra vaxta og ég trúi því líka að það sé mikill ávinningur af því að hafa eigin gjaldmiðil og við náum yfir lengri tíma meiri árangri í hagstjórn með þeim hætti. Þannig að þegar vextir hafa nú tekið að hækka á ný vil ég bara draga sérstaklega fram að það er vegna þess að hér hefur orðið ákveðinn misbrestur á milli framboðs og eftirspurnar. Framboðshliðin á húsnæðismarkaðnum hefur brugðist og þau tæki sem við höfum haft, stjórntæki, til að fylgjast vel með hafa ekki reynst nægjanlega öflug. Ég nefni sem dæmi að það er auðvitað út í hött í alvöruhagkerfi að menn séu að handtelja fjölda íbúða sem eru í byggingu með því að keyra á milli á Volkswagen Polo og skoða hvað er að gerast og skrifað niður á rúðustrikað blað. Við erum að vinna í þessu og það er svo margt annað. (Forseti hringir.) Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hefur reynst algjörlega gagnslaust verkfæri til að skipuleggja (Forseti hringir.) fjölda lóða sem eru tilbúnar til bygginga o.s.frv. Við erum að slíta barnsskónum nánast (Forseti hringir.) í því að byggja undir stjórntæki til að hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á takmarkaðan ræðutíma.)