152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér finnst skipta máli að draga þetta fram, að það sé einmitt verið að notast við bestu fáanlegu gögn til að varpa ljósi á stöðuna og til þess að bregðast við í takti við hana. Ég kom inn á í fyrri ræðu minni að hér var tekin ákvörðun um að standa vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfið og ég vil kannski bæta því við að það skiptir auðvitað sérstaklega miklu máli fyrir það fólk sem ekki er virkt á atvinnumarkaði þannig að það var mikilvæg efnahagsaðgerð og mikilvægt jöfnunartæki í sjálfu sér. Hæstv. ráðherra talaði um það, og það hefur aðeins verið rætt hérna, hvernig úrræðin fóru úr því að vera almenn yfir í það að nú séum við kannski að reyna að hafa þau enn sértækari og við höfum verið að ræða hér um sértækari úrræði á vinnumarkaði. En vegna þess að þetta er svo samtengt, það er ekki hægt að kljúfa vinnumarkaðinn frá samfélaginu eða samfélagið frá vinnumarkaðnum, þá langar mig aðeins að heyra hvort það sé verið að hugsa frekari sértæk úrræði sem snúa ekki beinlínis að vinnumarkaðnum heldur því einmitt að styðja fólk í því að halda heilsu. Það er mikið talað um kulnun. Það er mikið talað um það og við heyrum mikið af ýmiss konar vanda sem fólk er að glíma við sem gerir því hreinlega erfitt fyrir að vera þátttakendur á vinnumarkaði vegna þess hvernig faraldurinn hefur leikið samfélagið. Er verið að vinna með slík sértæk úrræði líka?