152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég myndi kannski fyrst og fremst vilja í þessu síðastnefnda samhengi benda á framlög til geðheilbrigðismála sem þessir flokkar sem hafa haldið áfram samstarfi í þessari ríkisstjórn hafa beitt sér fyrir allt frá árinu 2017, við vorum búin að setja þau mál mjög rækilega á dagskrá í fyrri stjórnarsáttmála og fjármagna ágætlega þá þegar að faraldurinn skall á og við bættum sérstaklega í. Ég tek undir það að það er einmitt á svona tímum sem menn þurfa að gæta sérstaklega að erfiðleikum á þessu sviði sem geta þróast yfir í langtímaveikindi og fólk sem áður kannski var virkir þátttakendur í starfi o.s.frv. dettur varanlega út af vinnumarkaði ef við bregðumst í því að veita stuðning á réttum tíma. En nú þegar við erum að velta því fyrir okkur í dag hvernig til tókst þá má alveg minna sig á það að þetta eru svo fordæmalausar aðstæður. Það var nánast á einni nóttu sem við stefndum inn í ástand í samfélaginu þar sem tugir þúsunda starfa töpuðust. Það gerðist í raun og veru bara frá mars fram í júní, júlí árið 2020 að það hurfu hérna tugir þúsunda starfa. Það er ekkert smávegis verkefni að fást við fyrir stjórnvöld og fyrir þingið. Ég verð að segja að mér líður nokkuð vel þegar ég horfi núna til baka og spyr að því hvort við höfum verið tilbúin til þess að bregðast við í samræmi við aðstæður, hætta því sem ekki var að ganga vel eins og t.d. þessi upphaflegu lánaúrræði með ríkisábyrgð, við breyttum þeim eftir því sem faraldurinn lengdist og annað sem væri hægt að tína til og hefur verið nefnt hér í umræðunni.