152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég gleðst yfir því að tekið sé eftir þeirri miklu aukningu sem farið hefur í nýsköpun, og kannski ekki þá síst samkeppnissjóðina sem þær ríkisstjórnir sem ég hef setið í hafa verið sammála um og beitt sér fyrir. Við erum að tala hérna í raun og veru um algera byltingu á framlögum í samkeppnissjóði á undanförnum árum. Við erum að tala um hluti sem menn létu sig varla dreyma um að gætu ræst á þeim fáu árum sem liðið hafa í þessu samhengi. Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður hafa fengið stóraukin framlög. Við höfum séð mikla fjárfestingu og ég vil meina að við höfum séð fyrstu sprotana nú þegar sem afrakstur af þessum auknu framlögum. Það sem hv. þingmaður er að vísa til þegar hann segir að það dragi úr þessum framlögum úr ríkissjóði þá er það rétt að við fórum í sérstaka viðbótaraukningu á framlögum inn í sjóðina sem var tímabundin frá upphafi og mun renna sitt skeið, en framlögin eru engu að síður langt yfir því sem við sáum bara fyrir fimm, sex, sjö árum síðan.

Þessu til viðbótar höfum við verið að stórauka endurgreiðslur út af rannsóknum og þróun og þar munar líka mjög miklu. Endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarstarfs, sem fram fer á Íslandi á vegum íslenskra fyrirtækja, stórra og smárra, eru farnar að hlaupa á milljörðum, 3–4 milljörðum á hverju ári. Þetta er fyrir utan það sem við höfum verið að gera til að efla starf í kvikmyndageiranum og tónlistinni og annars staðar. Þannig að ef við horfum svona vítt yfir svið, skoðum lagabreytingarnar, hvatana sem við höfum innleitt, skattalegar breytingar, bein framlög, óbein framlög, ívilnanir til grænna fjárfestinga o.s.frv., þá höfum við einfaldlega bara umbylt umhverfinu fyrir þessa starfsemi á Íslandi.