152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði kannski ekki spurningu minni að öllu leyti en það er von mín að hæstv. ráðherra endurskoði þær áætlanir að skera niður í nýsköpun, einfaldlega vegna þess að það mun tryggja miklu meiri innkomu í ríkissjóð en t.d. þær fjárfestingar sem lagðar hafa verið í að fjölga ráðuneytum.

En mig langar að ræða um annað mál í seinna andsvari. Í nýlegri könnun sem ferðamálaráð gerði er niðurstaðan sú að staðan hjá smærri fyrirtækjum í ferðamannaiðnaðinum er mjög slæm. Það er nefnilega þannig að þegar þremur stærstu fyrirtækjunum í hverri grein er sleppt þá er t.d. skuldastaða og neikvæð eiginfjárstaða þessara smáu fyrirtækja mjög slæm. Nú er það þannig að um 80% af því fjármagni sem ríkissjóður hefur lagt í stuðning á undanförnum tveimur árum hefur farið til þessara stóru fyrirtækja, en það eru fyrirtæki sem hafa einnig betri aðgang að lánsfé, hlutafé og öðrum úrræðum sem smærri fyrirtækin hafa ekki. Mörg þessara smærri fyrirtækja hafa jú nýtt sér það að geta frestað greiðslum, en greiðslurnar þarf svo einhvern tímann að borga.

Spurning mín er þessi: Hvernig hyggst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra bregðast betur við stöðu þessara smærri aðila í ferðamannaiðnaðinum? Og þá er ég sérstaklega að hugsa um eiginfjárstöðuna og skuldastöðuna til lengri tíma vegna þess að hún er enn þá vandamál sem við höfum slegið á frest í tvö ár.