152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hægt að horfa á uppgjör á þessum framlögum með mismunandi gleraugum. Ef við setjum gleraugun upp sem hv. þingmaður var með hér og spyrjum bara: Hvert fóru peningarnir, krónurnar? Hvert fóru háu fjárhæðirnar? Þá er það rétt að meira fór til stærri fyrirtækjanna, enda held ég að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að það væri lítið vit í því ef maður ætlaði að vera með almenna aðgerð að horfa á tvö flugfélög, Mýflug og Icelandair, og segja: Þetta er bara sama fyrirbæri, þetta er flugfélag, og þau fá bara sömu krónufjárhæð. Það er auðvitað alveg augljóst að stærri fyrirtækin voru líklegri til þess að njóta meiri stuðnings. En við höfðum samt alltaf þak og það voru mörk á því hvað hægt væri að sækja mikinn ríkisstuðning vegna einstakra stuðningsaðgerða.

Ég ætla að segja í þessu samhengi sömuleiðis að ef við setjum upp önnur gleraugu og spyrjum um fjölda fyrirtækja sem fengu stuðning þá sjáum við að yfirgnæfandi meiri hluti fyrirtækja sem fékk stuðning, ef við horfum bara til fjöldans, voru lítil og meðalstór fyrirtæki, mjög lítil fyrirtæki reyndar. Ef við skoðum kannski 50% af viðtakendum þá eru það mjög lítil fyrirtæki. Þannig að að mínu áliti hefur okkur tekist vel í samræmi við aðstæður, í samræmi við áfallið sem við erum að reyna að mæta, við að dreifa því sem við vorum með til skiptanna.

Svo verð ég að segja líka hér að lokum, af því að við erum almennt að ræða um ferðaþjónustuna í þessu samhengi, að staðan fyrir faraldurinn hjá mjög mörgum í ferðaþjónustu var þannig að afkoman var orðin léleg. Mörg þessara fyrirtækja stóðu ekki vel þegar faraldurinn skall á og við vorum ekki að fara að breyta því með stuðningsaðgerðum.