152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem ég held að sé mjög mikilvæg á þessum tímapunkti. Maður rifjar það upp að hafa setið hér á þingi á síðasta kjörtímabili þegar Covid-faraldurinn skall á og þokan var alveg svakaleg og maður vissi ekkert hverju maður átti von á. Ég skal viðurkenna það að ég var hrædd, ég var hrædd við að við værum að fara að upplifa sambærilegt ástand og við upplifðum hér í kjölfar bankahrunsins. Maður óttaðist fjöldagjaldþrot bæði heimila og fyrirtækja og gígantískt atvinnuleysi. Hæstv. ráðherra nefndi það einmitt áðan að þá var mantra ríkisstjórnarinnar að gera meira en minna. Við sátum hér margir þingmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og tókum við þessum efnahagsaðgerðum. Staðan var sú að hagaðilar, hvort sem það var þjóðhagsspáin eða aðrir aðilar á markaði sem voru að spá fyrir um ástandið, það var alltaf svart, það voru alltaf mjög svartar spár sem komu. En þær rættust engu að síður ekki því að það var brugðist við með aðgerðum sem skiluðu þeim árangri að þessar spár rættust ekki. Þannig að ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að ástandið er svo miklu betra en maður nokkru sinni þorði að vona þegar við vorum að stíga inn í þennan faraldur. Heilt yfir er árangur okkar í efnahagsmálum í gegnum þennan faraldur til mikillar fyrirmyndar.

En næstu skref. Hæstv. ráðherra talar hér um að stilla stjórntækin vel saman. Við sjáum jú verðbólguna rísa upp og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað á hann nákvæmlega við þegar hann talar um að stilla stjórntækin og halda rétt á spöðunum? Hvaða aðgerðir munum við sjá í þessum sal? Hvaða aðgerðir telur hæstv. ráðherra að við sjáum hjá Seðlabankanum (Forseti hringir.) og hvernig munu þessir sjálfvirku sveiflujafnarar okkar og það sem undirbúið er í kerfinu okkar nú þegar svara þessu ástandi sem við horfum fram á?