152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það sem ég á helst við er að ríkisvaldið sé ekki að koma með mjög örvandi aðgerðir á þeim tíma sem atvinnulífið hefur tekið við sér að nýju og það er búið að ráða í störf og við höfum fengið atvinnuleysistölur sem eru sambærilegar við það sem átti við fyrir faraldurinn, þá er kannski ekki rétti tíminn að vera með mjög örvandi aðgerðir. Við þurfum að komast aftur í eitthvert eðlilegt jafnvægi í þessum efnum. Stuðningsaðgerðir sem fela í sér útdeilingu peninga er eitthvað sem verður alltaf kallað eftir og við eigum bara að gera ráð fyrir því á þinginu að það verði kallað eftir aðgerðum jafnvel lengur en raunveruleg þörf er á. Þá skiptir máli að skoða bara með yfirvegun hver staðan er hverju sinni og eins og ég hef verið að rekja hér og við sjáum bara í hagtölum er mjög víða góður gangur í hagkerfinu. Það er hins vegar alvarlegt mál að ríkissjóður er rekinn með gríðarlega miklum halla um þessar mundir. Tekjuhlið ríkisfjármálanna hefur ekki enn tekið nægilega vel við sér og það kostar auðvitað svimandi háar fjárhæðir að halda aðgerðum úti og er ekki skynsamlegt. Ég bara vek aftur athygli á því sem ætti að blasa við öllum, að þegar Seðlabankinn hefur sett af stað vaxtahækkunarferli vegna þess að framleiðsluslakinn er ekki lengur til staðar, þá hljótum við sem höfum verið hér að hvetja og örva og tryggja að viðspyrna verði til staðar að breyta áherslum okkar í samræmi við það. Ég er engu að síður að tala fyrir því að við tökum nokkur ár í að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Ég held að það sé skynsamlegt. Of hröð aðlögun gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér, þ.e. ef við stefndum á jöfnuð of snemma. (Forseti hringir.) En það er þetta sem ég á við þegar ég er að tala um að stilla saman strengi.