152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir þessi sjónarmið. Ég held að það sé mikilvægt að við stöðvum skuldasöfnun ríkisins en það þarf að gerast á hæfilegum hraða. Mig langar í seinni spurningu minni að beina sjónum að stöðu sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa kannski aðeins minni burði til að bregðast við því ástandi sem uppi er og staða þeirra er mjög misjöfn. Þau eru auðvitað ofboðslega misjöfn að stærð og burðum og það er eitt af því sem ég hef m.a. talað fyrir, að það þurfi að fækka sveitarfélögum og þau þurfi að vera stærri og öflugri. Við horfum núna fram á mjög líklega erfiða kjarasamningalotu og mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvaða aðgerðir sér hann fyrir sér á hluta opinberra fjármála er lúta að sveitarfélögunum? Hvernig getur hann og við hér í þessum sal stutt við það að sveitarfélögin geti staðið undir þeirri mikilvægu grunnþjónustu sem þeim er lögum samkvæmt falið að sinna?