152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum aðeins snert á stöðu sveitarfélaganna í fjármálastefnunni. Þar erum við að horfa til lengri tíma og erum með spá eða áætlun um það hvernig þeirra helstu lykilstærðir á efnahagshliðinni líta út eftir nokkur ár. Við þekkjum þessi helstu ágreiningsefni við sveitarfélögin. Þau eru sum óleyst eftir margra ára samtal og eru ekkert mjög stór. Ég nefni gistináttaskatt sem við tölum um í stjórnarsáttmálanum, hvernig ætti að koma honum aftur í gildi í framtíðinni og hvaða lögmál ættu þá að gilda í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, í hvaða samhengi ætti það að gerast, í hvaða samhengi við önnur fjármálaleg samskipti. Ég nefni hér málefni fatlaðra sem því miður eru komin í ágreining þrátt fyrir að við höfum gefið okkur góðan tíma í að fara (Forseti hringir.) í gegnum svokallaðan reynslutíma og það eru fleiri atriði sem varða jöfnunarsjóðinn (Forseti hringir.) og slíka hluti sem við þurfum að ræða.