152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi farið ágætlega á því að hv. þingmaður talaði hér um að það skipti máli að launaþróun samrýmdist verðstöðugleika í landinu og rifjaði síðan upp að það hefði ekki alltaf verið þannig. Á þeim tíma sem hv. þingmaður vísaði til bjuggum við við tugprósenta verðbólgu, hún sló upp í 100% eins og rifjað var upp, og ég held einmitt að það hafi verið tilvikið að launaþróunin samrýmdist alls ekki verðstöðugleika. Það er það sem gerðist hér á níunda áratug síðustu aldar. Með allar þessar litlu sögur í farteskinu, söguna sem ég lýsti úr mínum reynsluheimi og söguna sem hv. þingmaður kemur með, og annað það sem hefur verið rætt hér í dag og í gegnum árin, þá held ég að ef við berum gæfu til að byggja á reynslu kynslóðanna muni okkur takast betur en fram til þessa að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, nota þau stjórntæki sem við höfum verið að byggja upp og stýra stöðunni úr því að vera með vaxandi verðbólgu aftur inn í ákveðið jafnvægi. Þetta getum við gert ef við bara missum ekki stjórn á þessum helstu stjórntækjum, ef við reynum ekki að sækja, hvort sem er í ríkissjóð eða í vasa vinnuveitenda, eitthvað sem ekki er til staðar og þarf að taka lán fyrir og verður bara að skila aftur með öllum kostnaði og vöxtum þegar fram í sækir.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er áhyggjuefni að fyrir tekjulágt fólk sérstaklega getur verðbólgan bitnað á ráðstöfunartekjum. En við getum ekki tekið umræðuna um húsnæðismarkaðinn svona einangrað. Það skiptir auðvitað líka máli hér að það eru til lánaform sem koma fólki ágætlega í skjól og það er annað sem þarf að hafa með í umræðunni, að þegar húsnæðisverðið er að hækka er eignastaða sömu heimila ekki að þróast með þeim hætti sem umræðan hér gefur til kynna, hún er líka að styrkjast.