152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:58]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina en ætla þó að fá að hafa hér uppi aðeins aðra söguskýringu en ráðherra fór yfir. Hér var ráðist í aðgerðir á vakt hæstv. ríkisstjórnar, sem reyndar hefur meira og minna verið við völd hérna síðustu tíu ár, í upphafi þessa faraldurs sem fólu einmitt í sér að takmarka ábyrgð hennar eins mikið og hægt var á ástandinu. Þetta gleymist í þessari umræðu. Það var beðið mjög lengi með beinar aðgerðir, sem ráðherra hrósar sér af í dag, á sviði ríkisfjármála þar til allt stefndi í strand, í níu mánuði biðu fyrirtækin eftir fjármagni. Þetta gleymist í umræðunni. Hins vegar var losað mjög hratt um hömlur á hinum frjálsa markaði sem átti að koma peningum á rétta staði af því að markaðurinn veit best, eiginfjárkröfur bankanna voru losaðar hratt, það þurfti að snarlækka bankaskatt. Við þessu ákalli úr fjármálakerfinu var brugðist mjög hratt. Þetta tómarúm sem var skilið eftir með hægum aðgerðum leiddi til þess að Seðlabankinn steig inn og lækkaði vexti á ógnarhraða. Niðurstaðan er methagnaður bankanna, 80 milljarðar, eftir eina mestu kreppu Íslandssögunnar. Niðurstaðan er að nær allur peningurinn rataði inn á húsnæðismarkaðinn. Niðurstaðan er 25% hækkun húsnæðisverðs. Önnur slík hækkun á fimm ára tímabili. Niðurstaðan er 450 milljarða kr. viðbótarskuldsetning heimilanna sem virðist ekki skipta máli. Niðurstaðan er 6% verðbólga. Og nú stefnir í sögulega hraðar vaxtahækkanir, ungt fólk og tekjulágir hafa bætt við sig gífurlegum skuldum á þessu tímabili og þó að verðbólgan lækki þá sitja þessar skuldir eftir.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Þykir honum eðlilegt að umræddir hópar taki á sig hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar, að bregðast svona seint við? Þykir hæstv. ráðherra eðlilegt að sjá svona hraðan viðsnúning í hagstjórn sem lendir á þessum hópum?