152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:03]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tel það bara vera svo að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra beri ábyrgð á efnahagsástandinu þannig að ef við sjáum 6% verðbólgu, 25% hækkun á húsnæðisverði og við sjáum stöðuna eins og hún er þá liggi ábyrgðin vissulega hjá viðkomandi aðila. Það sem ég er að reyna að vekja athygli á hér er einmitt að við gerum ekki þessi mistök að bíða of lengi. Hér voru höfð uppi stór orð um að það þurfi einfaldlega ekki að gera neitt og því velti ég því upp hérna í pontu til hæstv. ráðherra: Er verið að fylgjast með þessu í fjármálaráðuneytinu? Er greiningarteymi núna að vinna greiningu og úttekt á því hvaða fólk þetta er sem skuldsetur sig og hversu mikið, hvað þessi vaxtahækkun mun breyta miklu í þessu samhengi? (Forseti hringir.)

(Forseti (LínS): Hv. þingmaður átti eina mínútu.)

— Ég á 30 sekúndur eftir. Þetta var líka mjög hröð mínúta, ef þetta var það.

Ég velti því fyrir mér: Er þessi vinna í gangi? Mér finnst þetta vera grundvallarforsenda núna, að fjármálaráðuneytið hafi getu til að sjá þetta fyrir í þessu samhengi. Það liggur alveg fyrir að það eru hópar af fólki sem munu standa mjög illa í svona hröðum vaxtabreytingum. Það er enginn sem getur sagt mér að það sé eðlilegt að fara í 2% hringsnúning á vöxtum á svo skömmu tímabili. Það liggur fyrir að þetta mun valda erfiðleikum. Ég ítreka því við hæstv. ráðherra: Er í gangi formleg vinna að skoða þetta eða er þetta bara tilfinning hæstv. ráðherra?