152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:06]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel, líkt og hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir, að stjórnvöld hafi stigið ölduna í gegnum þennan ólgusjó. Aðgerðir til handa fyrirtækjum og heimilum landsins hafa í raun gefist alveg ótrúlega vel. Þar má nefna átök eins og Allir vinna, Hefjum störf, hlutabótaleiðina, viðspyrnustyrki, frestun á skilum staðgreiðsluskatts launa- og tryggingagjalds á árunum 2020 og 2022 o.s.frv. Við horfum samt sem áður á þá stöðu í dag að verðbólgan er farin af stað. Eins og hæstv. fjármálaráðherra orðaði það: Hættumerkin eru til staðar. Við horfumst því enn og aftur í augu við hana og spyrjum okkur hvernig best sé að taka á stöðunni. Í beinum tengslum við þetta er vert að minnast á húsnæðisliðinn í vísitölu neysluverðs sem hefur oft verið til vandræða og haft veruleg áhrif til hækkunar á verðtryggð lán. Hann hefur haft þau áhrif að verðtryggð lán hafa hækkað umtalsvert. Því væri áhugavert að vita hvort hæstv. fjármálaráðherra telji að tími sé kominn til að skoða þessi mál og taka þetta jafnvel úr vísitölunni og þá jafnframt hvort komið hafi til skoðunar að gera það mögulega tímabundið á meðan við erum að kljást við mesta vandann. Það liggur einnig fyrir að stýrivaxtahækkanir séu væntanlegar frá Seðlabankanum og fram undan miklar hækkanir á hrávörumörkuðum. Við þetta hækkar auðvitað allt: orka, matur, byggingarkostnaður o.fl. sem er mikilvægur þáttur í okkar eðlilega lífi. Það væri því jafnframt áhugavert að vita hvort ráðherrann sé á þeirri skoðun að sú leið sé skynsamleg í þeirri stöðu sem nú blasir við. Við þetta allt rýrnar kaupmátturinn. Við fáum minna fyrir krónurnar okkar og það er eitthvað sem við öll hér, launamenn, finnum fyrir þegar slíkt gerist.

Svona í lokin, virðulegi forseti, væri áhugavert að velta því upp með hæstv. ráðherra hvernig bregðast skuli við þessum aðstæðum og þá með hvaða hætti.