152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum efnt til vinnu við að skoða húsnæðisliðinn í vísitölunni og fengum að lokum, eftir samtal við aðila vinnumarkaðarins, til okkar erlenda sérfræðinga. Ég vil meina að við höfum verið með einn fremsta sérfræðing heims á þessu sviði til ráðgjafar. Ég myndi vilja segja um það að ég tel að vinnunni sé ekki endanlega lokið. Eins og innviðaráðherra hefur aðeins komið inn á held ég að það megi vinna aðeins áfram með þær ábendingar sem komu út úr þeirri vinnu.

En mig langar til að nálgast þetta aðeins að nýju frá grunni. Ef við skoðum sem dæmi samtal á milli banka og viðskiptavinar og bankinn myndi segja: Segðu mér hvaða vísitölu þú vilt nota og þá get ég sagt þér hverjir vextirnir verða. Þetta er ekki þannig að við getum bara sagt: Heyrðu, það eru einhverjir vextir í gangi og svo getum við bara handvalið einhverja vísitölu. Auðvitað skiptir það máli, fyrir þann sem er að veita aðgang að lánsfé, að það liggi fyrir hvaða vísitala er. Við getum ekki tekið vísitölu sem hefur verið í gildi og bara breytt samsetningu hennar og sagt að áfram eigi sömu skilmálar að gilda að öðru leyti. Þetta virkar bara ekki þannig.

Ef einhver meiri óvissa verður um þróun vísitölunnar til lengri tíma við að húsnæðisliðurinn fer út getur það haft neikvæðar afleiðingar á þá vexti sem standa til boða. Það getur t.d. haft áhrif á það til hversu langs tíma hægt er að fá vextina festa. Þetta finnst mér vera atriði sem þurfi að vera með í þessari umræðu. Við getum ekki bara valið akkúrat tímapunktinn þegar hlutirnir þróast á þennan veginn fyrir þá sem eru bundnir við þessa vísitölu og sagt: Ja, þetta er góð ástæða til að kippa henni úr sambandi. Þetta held ég reyndar að hafi verið meginástæðan fyrir því að verkalýðshreyfingin sætti sig við það á sínum tíma að að svo komnu máli yrði ekkert gert í þessari breytingu á síðasta kjörtímabili. En eins og ég sagði: Ég tel að málið sé og eigi áfram að vera til skoðunar. Það er ekkert alveg meitlað í stein hvernig á að gera þetta, ég held við séum með ábendingar sem áfram eigi að vinna með.

Hvað er til ráða þegar við fáum yfir okkur kostnaðarverðshækkanir, t.d. að utan, ef við tökum bara þann þáttinn? Ég held að það sé mjög lítið við því að gera. Við eigum fyrst og fremst að skoða stöðu veikustu hópanna og gera okkur grein fyrir því að allar líkur eru á því að slíkt verðbólguskot gangi yfir. Varðandi húsnæðismarkaðinn hef ég aðeins komið inn á það í dag að það eru brestir í þeim markaði sem við verðum að taka alvarlega. Mér finnst við gætum gert svo miklu betur. Að mínu áliti væru það mestu mistökin sem við gerðum núna að fara að auka enn frekar á eftirspurnina (Forseti hringir.) þegar það er augljóslega á framboðshliðinni sem eitthvað vantar inn í jöfnuna.