152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi svæðisskipulagið þá hefði ég haldið að þetta væri eitt af fáum tækjum sem við höfum til þess að leiða saman þá sem hvað mest áhrif geta haft á framboðshliðina og fengið þá í þessari vinnu til að leggja mat á þörfina og spyrja sig: Er það sem við erum sameiginlega að leggja hér á borðið líklegt til að mæta þeirri eftirspurn sem er í kortunum? Og þarna komum við dálítið að vanda sem ég kom inn á áðan. Við höfum kannski ekki verið neitt sérstaklega öflug í því að horfa inn í framtíðina til lengri tíma. En við höfum á undanförnum árum m.a. verið að gera stofnanabreytingar og höfum komið á fót þessari nýju Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hefur fengið aukið skilgreint hlutverk í þessu efni og hefur nýlega verið að taka saman tölur sem sýna að á framboðshliðinni er enn skortur.

Þannig að maður spyr sig: Þó að svæðisskipulagið hafi annan tilgang en nákvæmlega bara þennan þá líður manni stundum þannig þegar svona stórir hagsmunir eru undir að menn séu einhvern veginn bara að fara í gegnum einhverja ferla til að hafa hakað í box og teiknað upp fínar myndir um það hvernig þeir sjái byggðina teygja úr sér inn í framtíðina og hvernig meginsamgönguásarnir liggi o.s.frv. en þeir séu ekki að spyrja sig nægilega djúpt að því hvort þeir séu að mæta þörfum íbúanna á svæðinu. Það er algjör synd vegna þess að þetta er alveg upplagt tæki til að gera nákvæmlega það. Þegar svæðisskipulagsvinnunni er að ljúka þá ættu menn að geta haft skýrt svar við því. Ja, hér er einhver eftirspurn. Erum við með þessu skipulagi fyrir allt höfuðborgarsvæðið að mæta þörfinni og er framboðið nægjanlegt? Þetta breytir því ekki að sveitarfélögin geti haft mjög ólíkar áherslur. Það er augljóst ef við tökum t.d. sveitarfélögin Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog hvað það hafa verið ofboðslega ólíkar áherslur, miklu hraðari uppbygging í Kópavogi en í hinum sveitarfélögunum. (Forseti hringir.) Það er alveg svigrúm fyrir það inn í skipulagsvinnu. En þessari lykilspurningu hljótum við að vilja fá svarað í svona vinnu.