152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í mínum huga eru horfurnar í efnahagsmálum hjá ríkisstjórninni þær að von sé á fleiri ferðamönnum til landsins, það sé von til þess að ferðaþjónustan muni taka við sér. Það er raunverulega ekkert annað í kortunum hjá ríkisstjórninni nema það að ferðamennirnir komi og stærsta atvinnugrein landsins muni taka við sér. En það er ekki þar með sagt að það verði þannig. Allir heimsfaraldrar, allir „pandemics“, hafa alltaf leitt til grundvallarbreytinga á sviði tækniþróunar, lífsviðhorfa og almennra breytinga. Þannig var það eftir spænsku veikina og þannig mun það verða núna. Eftir spænsku veikina fengum við „the roaring twenties“ og núna þegar við förum út úr þessum heimsfaraldri er alveg kristaltært að hagkerfið mun keyrast upp. Aukin verðmætasköpun mun koma í gamla hagkerfinu. Við erum þegar farin að sjá breytingar á vinnumarkaði, t.d. varðandi fjarfundi, fólk er farið að starfa heima og annað slíkt.

Spurningin er hvort íslenskt samfélag sé tilbúið til að takast á við breytingarnar sem munu verða núna eftir heimsfaraldurinn. Þá er spurningin þessi: Hver er stefna stjórnvalda þegar kemur að sprotafyrirtækjum og nýsköpunarfyrirtækjum á sviði tækni? Væri ekki vert að fara í átak í líkingu við Allir vinna þegar kemur að sprotafyrirtækjum og veita skattafslátt og auka þannig atvinnufrelsi hjá sprotafyrirtækjum og möguleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki og nýjar hugmyndir að ná fram að ganga? Ég get ekki stillt mig um að nefna að það er líka tækifæri til að auka atvinnufrelsi strandveiðimanna fyrir landsbyggðina líka. Þessi sprotafyrirtæki munu fyrst og fremst vera hérna á höfuðborgarsvæðinu, kringum háskólana. Það er lykilatriði að stjórnvöld fari í átak, bæði varðandi sprotafyrirtækin og líka sérstakan pakka varðandi landsbyggðina og hinar dreifðu byggðir.