152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mjög margt hægt að læra af því að fara í gegnum svona kreppu eins og við gerðum í efnahagsmálum. Sumt af því getum við tekið með okkur til að breyta hugarfari hreinlega, t.d. það sem nefnt var varðandi fjarvinnu. Ég held að það hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið allt að við sáum þá möguleika. Það getur haft jákvæð áhrif á loftslagsmál, á umferðarmál, á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega, og bara aukna framleiðni, að nýta tækifærin sem liggja í fjarvinnslu og fjarfundum o.s.frv.

En við verðum líka að draga lærdóm af því að vera með veikleika eins og þá sem við þurftum að horfast í augu við. Mikilvægir innviðir geta brostið þegar eitthvað bjátar á. Við sáum það t.d. fyrir faraldurinn að þegar WOW air fór á hausinn olli það miklum búsifjum hjá mjög mörgum. Við hefðum þurft að vera betur á varðbergi fyrr vegna þess vanda sem þar var að byggjast upp. Við sjáum það sömuleiðis í ferðaþjónustu. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið kominn tímapunktur þar sem við vorum með almennt of lélega afkomu í ferðaþjónustu hjá of mörgum áður en heimsfaraldurinn skall á. Vonandi gerist það þá í framhaldinu að einingarnar styrkjast og við getum fengið arðbær fyrirtæki þegar ferðamönnum fer að fjölga að nýju.

Annars vil ég bara meina að við höfum sýnt það í verki að við viljum standa með sprotum og nýsköpunar- og þróunarstarfi. Við höfum verið að stórauka framlög í samkeppnissjóðina, við höfum verið að gera breytingar á skattumhverfi, bæði fyrir fyrirtækin sjálf, eigendur þeirra, þ.e. þá sem vilja leggja fé inn í slík fyrirtæki. Skattareglur hafa verið teknar til endurskoðunar og við höfum verið að hvetja til þess að þessi störf verði til á Íslandi og við erum þegar farin að sjá mjög mikinn ávinning af þessu.