152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við erum að fara inn í orkuskipti og það eru alls konar tæknibreytingar að koma. Ég tel að við á Alþingi Íslendinga ættum að leggja til að sett verði á laggirnar rannsóknarnefnd til að kanna áhrif heimsfaraldursins á íslenskt samfélag, einnig áhrif af aðgerðum stjórnvalda. Hvað var gert vel? Hvað mátti betur fara? Hverjir voru styrkleikarnir? Hverjir voru veikleikarnir? Horfa aðeins inn í framtíðina. Þessi skýrsla yrði sett saman og þar yrði farið yfir hvað var gert vel og hvað illa og hvað mætti betur fara. Þetta hafa Norðmenn þegar gert og Bretar hafa líka gert það. Það væri gaman að heyra álit fjármálaráðherra á því.

Ég tel líka að lokum mikilvægt að horfa til þess að með aðgerðum stjórnvalda í Covid er verið að dæla peningum út í samfélagið. Það hefur áhrif á eignir; eignir hækka, hlutabréf og annað slíkt. Þá verður eftir launafólkið og ekki síst þeir sem minna mega sín. Væri ekki rétt að fara í sérstakar aðgerðir núna til að rétta hlut öryrkja, aldraðra og fátæks fólks (Forseti hringir.) í kjölfar þessara aðgerða? Mig langar líka að benda á gengi krónunnar. Hvaða aðgerðir ætlar fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að fara í til að hafa stöðugt gengi krónunnar í framtíðinni?