152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er heilmargt um þetta að segja, hvað verðbólguna varðar og hvar hún bítur fyrst. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að það er akkúrat þar sem ekki er borð fyrir báru, þar sem erfitt er að ná endum saman, sem hærri húsaleiga eða hærri greiðslubyrði af húsnæðislánum kemur fyrst niður. Við höfum stuðningskerfi eins og húsnæðisbæturnar til að koma til móts við leigjendur en þegar öllu er á botninn hvolft er mikilvægasta verkefni okkar að vinna að stöðugleikanum, að ná lengri tímabilum stöðugleika. Stundum gerist það hins vegar, eins og t.d. á við núna, að við fáum verðbólguskot sem að hluta til á rætur sínar að rekja til alþjóðlegrar þróunar. Þegar það gerist er ágætt að velta fyrir sér hvort það sé jafn góð hugmynd og margir hafa lengi viljað vera láta að afnema með öllu verðtryggðu löngu lánin. Kannski eru þau eitt helsta skjólið einmitt við slíkar aðstæður. Þó að ég hafi hér mælt fyrir frumvarpi um að þrengja að notkun þeirra með ákveðnum undantekningum þá finnst mér samt mikilvægt að halda þessu til haga. Þær aðstæður sem nú eru að skapast eru kannski ágætar til að vekja fólk til umhugsunar um það hvort besta skjólið sem slík heimili gætu mögulega haft væri lánafyrirkomulag sem eyddi út áhrifunum á greiðslubyrði við svona verðbólguskot.