152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og held að þetta sé gríðarlega mikilvægt atriði sem hann kom inn á. Það er mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að læra einmitt af því hvað hefur tekist vel og hvað hefur kannski haft önnur áhrif en þau sem við héldum upphaflega og þar vísa ég til ólíks fyrirkomulags á húsnæðislánum. Ég held alla vega að það sé mjög mikilsvert að skoða þetta í fullri alvöru og fagna orðum hæstv. ráðherra. Það kom einnig fram hjá hæstv. ráðherra fyrr í þessari umræðu að hann sagði eitthvað á þessa leið: Að lokum verðum við dæmd af því hvernig við vinnum úr skuldunum eftir að áhrifa faraldursins er hætt að gæta. Ég held að þetta sé alveg hárrétt og ég held að þetta sé svona efnislega nokkurn veginn rétt haft eftir ráðherranum, annars leiðréttir hann mig. Það er rétt að það skiptir máli hver staða þjóðarbúsins var þegar við fórum inn í þennan faraldur og við gátum aukið skuldir. En við bjuggum líka við það að ýmsir innviðir samfélagsins hefðu þurft meiri styrkingu yfir lengra tímabil og ég held að við hljótum öll að vera sammála um að það hefði líka gagnast okkur í þessum faraldri. Mig langar að nota síðustu sekúndurnar til að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir hvernig við vegum þetta saman inn í framtíðina, þ.e. að greiða niður skuldir en standa á sama tíma vörð um hið öfluga samfélag sem er á Íslandi. (Forseti hringir.) Ég minni þar aftur á stóru kerfin okkar eins og heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið.