152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem kannski skiptir mestu þegar við erum að gera svona langtímaáætlanir er að skoða breytinguna frá einu ári til þess næsta. Það er vel hægt að réttlæta það að reka ríkissjóð áfram í einhvern tíma með halla til að verja góða opinbera þjónustu og þessi stóru kerfi sem hv. þingmaður er að vísa til, svo lengi sem við erum jafnt og þétt að vinna okkur aftur í jafnvægi. Það má ekki gerast yfir of langan tíma. Það sem við höfum viljað láta vísa okkur veginn í þessu er markmiðið um að skuldirnar verði ekki of íþyngjandi í lok þessa tíma og það er mín skoðun að við eigum að líta til grunngilda sem eru í lögum um opinber fjármál. Það er staðreynd að þingið hefur veitt ákveðið svigrúm í ákveðinn tíma til að víkja til hliðar tölulegum markmiðum og við erum bara að reyna að nota það svigrúm sem þingið hefur veitt og tryggja á sama tíma að við endum á góðum stað hvað skuldahlutföllin varðar og setjum okkur ekki í þá stöðu að þurfa að fara í einhvern meiri háttar niðurskurð. Meiri háttar niðurskurður of snemma á röngum tíma getur leitt til enn frekari vanda.

Það er hins vegar orðið dálítið langt síðan við tókum alvöruumræðu hér í þinginu um hagræðingu, að fara betur með. Ég skal bara segja það alveg eins og er að mér þykir þingið miklu oftar, örugglega tíu sinnum, hafa kallað eftir auknum útgjöldum á móti hverju einu skipti sem rætt er um það hvort hægt sé að fara betur með og nýta fjármuni með skynsamlegri hætti o.s.frv., hvort mögulega mætti fækka stofnunum, sameina o.s.frv. Og reyndar þegar þessi ríkisstjórn og þessir flokkar hafa á undanförnum árum verið að vinna að slíkum verkefnum, sama hvort það er sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka eða breytingar sem hæstv. nýsköpunarráðherra var að gera á sínum tíma með Nýsköpunarmiðstöð og fleiri dæmi mætti tína til, sameiningu Tollsins og Skattsins sem ég var að vinna að, (Forseti hringir.) hafa yfirleitt alltaf komið fram efasemdarraddir héðan úr þinginu.