152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að bregðast við vegna síðasta andsvars ráðherrans. Taka alvöruumræðu um hagræðingu, segir hann. (Fjmrh.: Hafa það með.) Var maðurinn ekki að djóka? Við erum að koma hérna út úr tveggja ára heimsfaraldri Covid þar sem opinberir starfsmenn hafa haldið samfélaginu gangandi; kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, rosalega margar fjölmennar stéttir, oft kvennastéttir, á of lágum launum sem vinna við ólíðandi aðstæður í boði ráðherrans sem vill núna fara að hagræða þeim. Þetta er reyndar það sem ég ætlaði að spyrja ráðherrann að þannig að það hittist kannski dálítið vel á. Nú styttist í kjarasamninga og einmitt á sama tíma og húsnæðismálin eru í ólestri, þökk sé hagstjórnarmistökum hæstv. ráðherra, þá horfum við fram á að það eru lausir samningar hjá öllu þessu vanmetna opinbera starfsfólki sem hæstv. ráðherra vill hagræða hjá. Þegar svokallaður hæstv. ráðherra vinnumarkaðarins er spurður út í stöðu mála þá segir hann að hann hvetji bara aðila vinnumarkaðarins til að eiga gott samtal, eins og hið opinbera sé ekki aðili að því samtali, ekki bara til að liðka fyrir á almenna markaðnum heldur beinlínis til að setjast niður við samningaborðið hjá opinberum starfsmönnum. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem málefni ríkisstarfsmanna heyra undir og þar með samninganefnd ríkisins: Hverju á starfsfólk hins opinbera von á í kjarasamningum? (Forseti hringir.) Fólkið sem í tyllidagaræðum er kallað framlínustarfsfólk og er þakkað framlag sitt, (Forseti hringir.) mun það sjá það þakklæti í launaumslaginu frá hæstv. ráðherra?