152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér kom einmitt holdgervingur þeirra sjónarmiða sem ég er hér að tala um, maður sem sér hvergi tækifæri til að hagræða eða gera betur, ríkið hljóti bara að hafa fundið upp hina einu réttu leið til að fara með opinbert fé í eitt skipti fyrir öll og allir efasemdarmenn um það eiga bara að halda sig heima og halda kjafti helst vegna þess að ríkið ber höfuð og herðar yfir alla aðra í meðferð peninga og menn eigi bara að skammast sín, þeir sem leyfi sér að tala um að það mætti mögulega gera betur einhvers staðar, sameina stofnanir, fara aðrar leiðir í húsnæðismálum ríkisins, hvernig farið er með skrifstofuhald ríkisins, mögulega einhver verkefni sem eru orðin úrelt, gera breytingar. Nei, þessu fólki stillir hann upp sem andstæðingum opinberra starfsmanna. Hversu gamaldags geta menn verið? Hversu forpokaðir geta menn verið? Það er með ólíkindum að hlusta á þessi sjónarmið og þetta eru raddirnar sem heyrast þegar ríkissjóður hefur safnað 500 milljarða skuldum á örfáum mánuðum og er enn í djúpum hallarekstri. Leyfi menn sér að efast um að allt sé nákvæmlega best og réttast gert hjá ríkinu þá fá menn yfir sig skítadrífuna frá mönnum eins og þeim sem hér talaði síðast, hv. þingmanni.

Hverju eiga opinberir starfsmenn von á frá ríkinu? Hvaða sögu hefur ríkisstjórnin í samskiptum við opinbera markaðinn? Hún hefur þá sögu að segja að þrátt fyrir dýpsta heimsfaraldur sem við höfum farið í gegnum í rétt u.þ.b. 100 ár þá var opinberi reksturinn varinn, engum sagt upp, hvergi hagrætt, hallareksturinn tekinn á sig til að verja störfin. Hv. þingmaður ætti kannski að þylja upp kaupmáttaraukninguna sem hefur átt sér stað hjá þeim sem hann vill helst berjast fyrir á undanförnum árum og spyrja sig hvort einhver á Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu hafi verið að gera mikið betur. Ég held ekki.