152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Tímabilið sem hv. þingmaður er að tala um hérna er tímabil þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna fór vaxandi á hverju ári, líka í heimsfaraldrinum. Þegar hv. þingmaður talar um að hér hafi skuldir vaxið hjá heimilunum þá ætla ég að biðja hv. þingmann um að velta fyrir sér hvernig eiginfjárstaða heimilanna hefur breyst yfir sama tíma, hvort það séu mögulega einhverjar eignir á móti skuldum og hvort það geti verið að eignir hafi jafnvel vaxið hraðar heldur en skuldirnar þannig að heimilin séu, þegar upp er staðið, betur sett í lok tímans en í upphafi. Ég held að það sé kannski þannig. Þetta eru nokkrar grundvallarstaðreyndir sem er ágætt að hafa í huga ef menn ætla að fara að blanda sér í umræðu um efnahagsmál og stöðu heimilanna, að vita hvaðan við erum að koma og hvar við stöndum í dag. Það sem okkur hefur tekist að gera er að verja störfin og þjónustustigið í opinbera geiranum og leggja grunn að því að við getum áfram notið batnandi lífskjara í framtíðinni. Það er staða sem ég er nokkuð stoltur af.