152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að fá tækifæri til að ræða aðeins lögin um opinber fjármál sem mér finnst að hafi í raun lagt algjörlega nýjan grunn að allri umræðu um ríkisfjármálin og samspil þeirra við sveitarfélögin. Við erum farin að ræða hér ítrekað og reglulega langtímaáætlanir sem áður tíðkaðist ekki að gera. Aðalástæðan fyrir því að við bættum útgjaldareglu ekki við aðrar reglur sem eru tölulegar, og er að finna í lögum um opinber fjármál, er sú að við töldum að með því værum við mögulega að koma með of margar reglur til að uppfylla. Það er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að ríkisstjórnin setji sér útgjaldamarkmið og í þessu útgjaldasamhengi, fyrst við erum komin þangað, langar mig til að vekja athygli á einu sem ég held að hafi aðeins bitið okkur í skottið. Yfir 10–15 ára tímabil, þróaðist útgjaldahliðin með þeim hætti að tilfærslurnar tóku vaxandi hluta heildarútgjaldanna. Og hvað erum við að tala um hér? Jú, við erum að tala um að þessi helstu stóru stuðningskerfi, eins og almannatryggingar, voru að taka hlutfallslega meira og meira af útgjaldahliðinni, ég tala nú ekki um tekjuhliðinni þegar hún gefur eftir. Erum við ekki með rúmlega 10% í ellilífeyri almannatrygginga, 10% af heildartekjunum okkar? Það sem þetta gerir er að þetta þrengir möguleika okkar til að fjárfesta. Þess vegna myndi ég ekkert síður vilja að við tækjum upp á yfirborðið og ræddum sérstaklega, í tengslum við langtímaáætlanir, þörfina fyrir fjárfestingar og við höfum aðeins verið að leggja grunn að því með því að skapa nýjan efnahagsreikning fyrir ríkið og reyna að átta okkur á því hvort (Forseti hringir.) við værum að fjárfesta til að vega á móti afskriftum. En fjárfestingar á móti tilfærslum er eitthvað sem við þurfum að skoða sérstaklega og hafa skoðun á.