152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég er í grunninn algerlega sammála hv. þingmanni að við þurfum að hafa skoðun á því hvernig útgjöldin breytast frá einum tíma til annars og við þurfum líka að gera mun á því sem liggur í lýðfræðilegum breytingum, útreiknuðum stærðum eins og öldrun þjóðarinnar og auknu álagi á almannatryggingar vegna þess eða í heilbrigðiskerfinu, og hinum sem eru sjálfstæðar ákvarðanir um aukin útgjöld með nýjum útgjaldaliðum á nýjum verkefnum. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við höfum haft tilhneigingu til þess að sjá útgjöldin vaxa of hratt í góðæri og við höfum líka farið mjög bratt í niðurskurð í kreppu eins og t.d. gerðist 2009. Það var örugglega farið of bratt í niðurskurð, sérstaklega í fjárfestingunni eftir fjármálahrunið. Hvort það á að leiða til þess að stjórnmálamenn setji sér útgjaldareglu, ég veit það ekki. Kannski er í því fólginn ákveðinn ómöguleiki líka miðað við það sem ég hef verið að segja. (Forseti hringir.) Hvernig getur stjórnmálamaður sett bönd á það hvað hann vill fá að eyða í framtíðinni?