152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:47]
Horfa

Thomas Möller (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir gott samtal hér í dag. Ég er að taka þátt í þessu í fyrsta sinn og það er mjög ánægjulegt að sjá hvernig samskiptin eru hér. En ég er með spurningu til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Ég vil geta þess að á Alþingi hefur almennt ríkt samstaða um það að hlusta á sérfræðinga. Í baráttunni við Covid hefur það reynst okkur farsælt að hlýða sérfræðingum okkar í sóttvörnum. Varðandi aflaheimildir fylgjum við ráðum Hafró og þegar stormur er í aðsigi hlýðum við veðurfræðingum. En ríkisstjórnin hlustar því miður ekki alltaf á sérfræðinga. Eitt dæmi um slíkt er mál sem var samþykkt á Alþingi nýlega þrátt fyrir athugasemdir og aðvaranir sérfræðinga á skattskrifstofu ráðuneytis hæstv. ráðherra. Ég er að að sjálfsögðu tala um átakið Allir vinna sem fékk 7,2 milljarða framlag úr ríkissjóði þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir frá sérfræðingum fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem er ráðuneyti hæstv. ráðherra. Þar segir m.a. að ekki sé til staðar þörf á framlengingu Allir vinna úrræðanna, frávik frá grunngerð virðisaukaskattskerfisins séu til þess fallin að veikja kerfið og draga úr tekjuskilvirkni, framlenging þeirra hluta úrræða sem snúa að íbúðarhúsnæði geti haft í för með sér ruðningsáhrif og um hafi verið að ræða innspýtingu á fjármagni inn í hagkerfið sem sé nú þegar þanið. Í máli hæstv. ráðherra áðan kom einmitt fram að ekki væri lengur þörf fyrir að örva hagkerfið með mjög sértækum aðgerðum. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Hvers vegna fór hann ekki eftir ráðleggingum sérfræðinga sinna í þessu stóra máli? (Forseti hringir.) Sá hann ekki aðvaranirnar? Misskildi hann þær eða kaus hann einfaldlega að fara ekki eftir þeim? Ég bara spyr: Hvað var það?