152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við ræddum um í þessu samhengi var annars vegar fjárlagafrumvarpið og hins vegar tekjubandormar sem því tengdust og það var þingið sem tók ákvörðun um að breyta forsendunum um framlengingu Allir vinna, þ.e. með því að framlengja, en ég hafði ekki gert ráð fyrir því í frumvörpunum eins og ég hafði lagt þau fram fyrir þingið. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég horfi eins á það, að hérna hefur verið brestur á framboðshliðinni. Mig langar að nefna eitt í því samhengi. Ég held að þessi tímabundna framlenging um sex mánuði og átta mánuði sé ekki að fara að valda neinum straumhvörfum í þessu. Við erum á þessu ári að hætta með 100% endurgreiðslur.

En mig langar að nefna annað hérna sem er að ríkið hefur verið að breyta húsnæðisstuðningi sínum, sérstaklega úr vaxtabótum yfir í sértækari úrræði, annars vegar húsnæðisbæturnar og hins vegar hlutdeildarlánin. (Forseti hringir.) Það vekur athygli mína að eftir því sem ríkið á beinan þátt í byggingu fleiri íbúða hefur okkur ekki tekist (Forseti hringir.) að fjölga íbúðum sem eru í byggingu. Það er áhyggjuefni.