152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það hér undir lok umræðunnar að ég fagna hverju tækifæri til að ræða um stöðu efnahagsmála á þessum viðkvæmu tímum. Við erum að ljúka hér vonandi tímabili sem verður lengi í minnum haft. Það er svo margt við þennan tíma sem er óvanalegt og sumt af þessu sem gerðist hér hefði ekki einu sinni verið hægt að skrifa þannig að það væri trúverðugt skólabókardæmi, að það gæti eitthvað komið upp á sem myndi bara þurrka út stóran hluta allra starfa á hinum almenna vinnumarkaði og að við gætum fengið að sjá hvaða áhrif það hefði á opinberu fjármálin ef 20.000 störf töpuðust hérna megin í vinnuhagkerfinu eða bara ekkert starf væri að tapast hinum megin, hvaða áhrif það myndi hafa á tekjur og framfærslu heimilanna og á skuldaþróun hjá ríkissjóði, hvaða áhrif það myndi hafa á sveitarfélögin o.s.frv. Að þessu leytinu til, ef maður leyfir sér aðeins að svífa fyrir ofan ástandið og horfa á þessar ofboðslegu hræringar, breytingar sem hafa átt sér stað, þá er þetta alveg ofboðslega merkilegt tímabil og maður er satt best að segja ánægður í dag í einhvers konar uppgjöri, einhverju milliuppgjöri, skulum við segja, í þessari umræðu. Ég átti ekki von á öðru en að fólk sæi þetta með eitthvað ólíkum hætti. Þá verð ég samt að segja að við erum svona heilt yfir á ágætisstað jafnvel þótt hér hafi komið fram ólíkar skoðanir um það hvort við hefðum átt að gera suma hluti öðruvísi og hvort við gætum mögulega verið á enn betri stað. Í þessu samhengi þá er það gott t.d. að Seðlabankinn fór aldrei á endanum í magnbundna íhlutun. Það var ekki farið í það að styðja ríkissjóð í því að gefa út skuldabréf og þurrka þau upp á markaðnum. Þetta er alveg ofboðslega mikið frávik þegar við t.d. berum okkur saman við það sem hefur gerst á evrusvæðinu þar sem Evrópski seðlabankinn hefur verið að kaupa allt að 80% af öllum útgáfum (Forseti hringir.) aðildarríkjanna og það á eftir að greiða úr öllum þeim vanda. Þetta vandamál erum við ekki með.

Að öðru leyti þá þakka ég fyrir. Nú langaði mig til þess að fara að tala í svona klukkutíma (Forseti hringir.) en það er ekki pláss fyrir það og ég bara lýk (Forseti hringir.) þessari umræðu á því að þakka fyrir skemmtilega málefnalega umræðu.